Fótbolti

Í Króatíu er ekki óvanalegt að fá sér smábjór eftir leiki

Kolbeinn Tumi Daðason í Zagreb skrifar
Króatískir blaðamenn hópuðust í kringum blaðamann Vísis.
Króatískir blaðamenn hópuðust í kringum blaðamann Vísis. Mynd/Vilhelm
Króatískir blaðamenn sýndu fregnum Vísis af drykkju leikmanna króatíska landsliðsins, eftir fyrri leikinn í Reykjavík á föstudaginn, mikinn áhuga. Fréttirnar komu þeim flestum í opna skjöldu á blaðamannafundi með þjálfaranum Niko Kovac síðdegis í gær.

Kovac þverneitaði að átta af leikmönnum liðsins hefðu verið lengi á fótum og setið að sumbli. Hann sagði undirritaðan ekki vera þann herramann úr norðri sem hann hefði talið hann vera fyrst hann héldi slíku fram.

Króatíski íþróttafréttamaðurinn Ivica Medo hjá vefmiðlinum gol.hr var einn þeirra sem sýndu fregnunum töluverðan áhuga. Hann sagðist á báðum áttum hvort hann tryði fréttunum frá Íslandi eða orðum þjálfarans. Í hans augum væri líka erfitt að meta hvort leikmennirnir hefðu farið yfir strikið.

„Í Króatíu er ekki óvanalegt að fá sér smábjór eftir leiki. Hver veit? Kannski sátu þeir saman eftir leikinn, slökuðu á og drukku bjór,“ segir Medo. Hann bendir á að þótt á áttunda tug bjóra hafi verið færðir landsliðsmönnunum upp á herbergi fari eftir stærð bjóranna í hvernig ástandi þeir hafi verið.

„Þetta gæti verið vandamál hafi þeir drukkið mikið,“ segir Medo. Aðspurður um hvaða þýðingu fréttirnar hafi fyrir orðspor landsliðsins í heimalandinu sagði Medo:

„Þetta er ekki skandall en ansi nálægt því samt sem áður.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×