Erlent

Glasafrjóvganir þurfa ekki að vera fokdýrar

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Þegar glasafrjóvgun er framkvæmd er notast við dýran tækjabúnað og ferlið er flókið.
Þegar glasafrjóvgun er framkvæmd er notast við dýran tækjabúnað og ferlið er flókið. Mynd/AP
„Glasafrjóvganir eru látnar virðast vera flóknar, en í raun hefur fóstur á fyrstu stigum ekki ýkja miklar þarfir,“ hefur AP fréttastofan eftir Jonathan Van Blerkom, frjóvgunarfræðingi við háskólann í Colorado í Bandaríkjunum.

Á Vesturlöndum hefur fólk þurft að greiða háar fjárhæðir fyrir að gangast undir glasafrjóvgun, en í fátækari löndum heims hefur fólk ekki ráðið við þennan kostnað.

Van Blerkom fékk því, ásamt félögum sínum, það verkefni að finna ódýrari og einfaldari leiðir til að framkvæma glasafrjóvganir.

Þeir leituðu aftur til upprunans, þegar vísindamenn voru fyrst að prófa sig áfram með glasafrjóvganir, og árangurinn kom þeim á óvart.

Með því að sleppa þeim dýra tækjabúnaði, sem nú orðið tíðkast að nota við glasafrjóvganir, en nota í staðinn tvö tilraunaglös og sérblandaðar lausnir sé hægt að ná sama árangri fyrir fáeina tugi þúsunda króna.

Van Blerkom metur það svo, að um það bil helmingur þeirra sem vill gangast undir barneignir, geti fengið lausn sinna mála með þessari einföldu aðferð. 

Hinir, sem eru með flóknari ófrjósemisvanda, þurfi þó enn að gangast undir þá meðferð sem nú er orðin hefðbundin, með dýrum tækjabúnaði og flóknu vinnuferli.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×