Erlent

Tyrkneskir mótmælendur efndu til kyrrstöðumótmæla

Þorgils Jónsson skrifar
Margir mótmælendur í Tyrklandi fylgdu fordæmi Erdems Gunduz og stóðu í þögn til að mótmæla ofríki. stjórnvalda.FRéttablaðið/AP
Margir mótmælendur í Tyrklandi fylgdu fordæmi Erdems Gunduz og stóðu í þögn til að mótmæla ofríki. stjórnvalda.FRéttablaðið/AP
Mótmælin í Tyrklandi tóku á sig nýja mynd í gær þar sem hópur andófsmanna gegn meintu ofríki stjórnvalda stóð einfaldlega grafkyrr á opinberum stöðum í stærstu borgum landsins.

Fyrirmyndin er Erdem Gunduz, sem vakti mikla athygli á samfélagsmiðlum þar sem hann stóð eins og myndastytta í átta klukkustundir á Taksim-torgi í Istanbúl, þar sem rósturnar hófust fyrir um þremur vikum.

„Ég er bara venjulegur borgari. Við viljum að raddir okkar heyrist,“ sagði Gunduz.

Í fyrrinótt notaði lögregla táragas og vatnsbyssur til að hrekja mótmælendur burt úr stjórnarhverfinu.

Til þessa hafa fjórir látist í mótmælunum, þar af einn lögreglumaður, og 7.500 hafa meiðst.

Recep Tayyip Erdogan forsætisráðherra hefur útmálað mótmælendur sem óþjóðalýð og jafnvel hryðjuverkamenn. Ekki sér enn fyrir endann á ófriðnum og Bulent Arinc varaforsætisráðherra gerði því meðal annars skóna að hernum yrði mögulega beitt gegn mótmælendum. Hann dró síðar í land með þær yfirlýsingar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×