Erlent

Milljónir Sýrlendinga hjálparþurfi

Ein og hálf milljón manna hefur nú þegar leitað hælis í Jórdaníu, Líbanon, Tyrklandi, Egyptalandi og Írak.
Ein og hálf milljón manna hefur nú þegar leitað hælis í Jórdaníu, Líbanon, Tyrklandi, Egyptalandi og Írak. Nordicphotos/AFP

Fjöldi sýrlenskra flóttamanna í nágrannalöndum Sýrllands gæti farið upp í þrjár og hálfa milljón í lok ársins. Sameinuðu þjóðirnar hafa gefið út alþjóðlegt hjálparkall vegna ástandsins í Sýrlandi. SÞ biðla til ríkja um að gefa rúmlega 600 milljarða íslenskra króna til að létta þjáningar milljóna manna, bæði innanlands og utan, sem hafa þurft að glíma við afleiðingar átakanna undanfarin tvö ár.

Yfirmaður flóttamannahjálpar SÞ, Antonio Guterres, sagði á blaðamannafundi í Genf fyrir skömmu að rúmlega ein og hálf milljón manna hafi nú þegar leitað hælis í Jórdaníu, Líbanon, Tyrklandi, Írak og Egyptalandi. Hann sagði um sjö þúsund manns fara yfir landamærin á degi hverjum.

„Ef átökin stöðvast ekki getum við átt von á gríðarlegri fólksfjölgun í Mið-Austurlöndum sem innviðir samfélagsins standa ekki undir,“ sagði Guterres og benti á að Líbanon og Jórdanía hefðu borið þungar fjárhagslegar byrðar vegna móttöku um hálfrar milljónar flóttamanna hvor.

Guterres sagði upphæðina blikna í samanburði við það sem ríki á Vesturlöndum hefðu eytt í björgunaraðgerðir bankanna og sambærilegt við það sem Bandaríkjamenn eyddu í ís á 32 dögum. Valerie Amos, helsti ráðgjafi SÞ í mannúðarmálum, segir upphæðina vissulega háa en á bak við hana sé mannlegur harmleikur.

Hún bendir á að um 80 þúsund manns hafi látið lífið síðan byltingin gegn Bashar Assad, forseta Sýrlands, hófst í mars 2011. Hún segir jafnframt að átökin hafi fært uppbyggingu Sýrlands aftur um tvo áratugi. Á síðasta ári var talið að um fjórar milljónir manna væru hjálparþurfi í Sýrlandi en sú tala hefur hækkað upp í sjö milljónir. Sérstaklega er mikilvægt að matur og lyf berist til landsins, en margir bændur geta ekki annast akra sína og verðlag á nauðsynjavörum hefur hækkað mikið undanfarna mánuði.

The World Food Program hefur tilkynnt að samtökin muni aðstoða fjórar milljónir manna í Sýrlandi fyrir september, til viðbótar við tvær milljónir flóttamanna í nálægum löndum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×