Erlent

Skutu hvítabjörn til bana í nauðvörn

Þorgils Jónsson skrifar
Hvítabjörninn var kominn hálfur inn í kofann þegar hann var felldur með skammbyssuskoti. Þetta er í fyrsta sinn í tvö ár sem björn er drepinn á Svalbarða. Mynd/Arild Lyssand
Hvítabjörninn var kominn hálfur inn í kofann þegar hann var felldur með skammbyssuskoti. Þetta er í fyrsta sinn í tvö ár sem björn er drepinn á Svalbarða. Mynd/Arild Lyssand
Litlu mátti muna að illa færi fyrir manni og konu þegar trylltur hvítabjörn reyndi að brjótast til inngöngu í kofa þar sem þau voru stödd við Hornsund á Svalbarða á sunnudag. Maðurinn skaut björninn og drap hann með skammbyssu.

Fólkið, sem er á fimmtugsaldri er búsett á Svalbarða og var vel útbúið. Í norskum miðlum kemur fram að fólkið reyndi fyrst að fæla björninn, sem var karldýr, í burtu, en hann gerðist sífellt ágengari þar til hann réðist á kofann og reyndi að troða sér inn um glugga.

Arild Lyssand, yfirlögregluþjónn á Svalbarða, segir í samtali við Fréttablaðið að parið hafi reynt allt til að fæla björninn burtu, meðal annars hafði konan skotið fjórum neyðarblysum að birninum, sem lagði alltaf aftur til atlögu og var kominn hálfur inn í kofann. Maðurinn lagði svo björninn að velli með því að skjóta hann einu skoti í augað með 44 kalíbera skammbyssu.

Hvítabirnir eru nokkuð algengir á þessum slóðum, og eru alfriðaðir nema um nauðvörn sé að ræða. Það er þó ekki algengt að til þess þurfi að koma, enda eru um tvö ár síðan björn var síðast felldur á Svalbarða.

Lars Erik Alfheim, aðstoðarsýslumaður á Svalbarða sagði í samtali við Aftenposten að ekkert benti til annars en að um nauðvörn hafi verið að ráð í þessu tilfelli.

„Þau virðast hafa reynt flestallt annað, en björninn bara gaf sig ekki."

Alfheim sagði ekki auðvelt að segja hversu algengt sé að birnir reyni að brjótast inn í kofa með þessum hætti, eða hvað hafi drifið hann áfram.

„Hann hefur kannski verið á höttunum eftir æti, en það er mjög erfitt að gefa sér nokkuð um framferði hvítabjarna."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×