Íslenski boltinn

Hverjir eru nógu ruglaðir?

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Hermann spilaði með sjö liðum á Englandi. Síðustu leikir hans voru með Coventry.
Hermann spilaði með sjö liðum á Englandi. Síðustu leikir hans voru með Coventry. Mynd/Nordic Photos/Getty
„Það eru nokkrir leikmenn farnir en það var svo sem búist við því og ekkert við því að gera. Það er enn þá ágætishópur hérna og við verðum að bíða og sjá hvernig það kemur út. Það kemur alltaf maður í manns stað. Þetta er aukin áskorun," segir Hermann Hreiðarsson, þjálfari Eyjamanna.

Óhætt er að segja að lykilmenn hafi horfið á braut allt frá aftasta manni á vellinum til þess fremsta eins og sjá má hér til hliðar. Hermann, sem tók við liði ÍBV í haust, viðurkennir að erfitt verði að fylla í skörðin.

„Abel, Gummi, Tryggvi og Rasmus voru náttúrulega búnir að vera saman og kominn ákveðinn kjarni í liðið. Þetta verður auðvitað aðeins erfiðara þegar það eru margir nýir. Það er langt í mót og margir leikir fram að móti. Auðvitað hefði maður valið að missa aðeins færri en maður hefur ekki alltaf valið."

Unnið í málunum dag frá degi

Hermann segir að brottför lykilmannanna hafi ekki komið sér í opna skjöldu.

„Ég vissi svo sem hverjir væru með lausa samninga og hverjir ætluðu að fara eitthvað. Ég ræddi við flesta leikmennina eftir Íslandsmótið. Þetta er ekkert sem maður veltir sér upp úr. Maður heldur bara áfram og sér hvernig hinir koma allir út. Ég er enn þá með ágætismannskap. Það verður bara að sjá hvernig það kemur út í þessum leikjum á næstunni," segir Hermann sem reiknar með því að halda flestum þeim sem eftir séu.

„Maður veit þó aldrei. Það er verið að vinna í þessu dag frá degi, þannig séð, að sjá hverjir verða örugglega áfram og hverjir gætu hugsanlega komið. Það ætti að koma einhver mynd á það í lok mánaðarins," segir Hermann, sem spilaði í fimmtán ár sem atvinnumaður á Englandi. Hann þekkir því vel til á Englandi og horfir þangað eftir liðstyrk.

„Ég er búinn að heyra í nokkrum mönnum og fer aðeins út, í námsferðir í rauninni. Að fylgjast með hjá einhverjum stjórum og sjá hvað er verið að gera. Sjá hvort það sé ekki hægt að plata einhverja menn til Íslands. Við sjáum til hverjir eru nógu ruglaðir að koma til Íslands að klára þetta," segir Hermann.

Futsal til tilbreytingar

Karlalið ÍBV mætir Valsmönnum í undanúrslitum Íslandsmótsins í Futsal í Laugardalshöll í dag. Hermann gæti því landað sínum fyrsta titli með Eyjaliðið þótt enn séu rúmir fjórir mánuðir í að Íslandsmótið hefjist.

„Þetta er ákveðin tilbreyting. Undirbúningstímabilið er langt og það er bara gaman að þessu. Þetta er allt annað en líka fín tilbreyting. Við höfum haft gaman af leikjunum hingað til og gerum það áfram," segir Hermann óviss hvort hann muni reima á sig skóna.

„Ég veit það ekki. Það fer eftir því hvort við náum í lið eða ekki," sagði Hermann á léttu nótunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×