Erlent

Tveir ólíkir dómar um njósnir

Fanney Birna Jónsdóttir skrifar
Alríkisdómari í Bandaríkjunum hefur úrskurðað að Þjóðaröryggisstofnun Bandaríkjanna hafi verið heimilt að safna gögnum um símnotkun og vísaði frá máli gegn stofnuninni sem höfðað var af mannréttindasamtökum sem berjast fyrir borgaralegum réttindum, ACLU. The Guardian greinir frá þessu.

Dómarinn sagði eftirlitskerfið hafa verið svar við hryðjuverkaárásum Al-Kaída 11. september 2001. Hann sagði einnig að vissulega væri kerfið umdeilt, en það væri þó löglegt. Það eigi að vera í verkahring hinna tveggja arma ríkisvaldsins, löggjafar- og framkvæmdavaldsins, að svara spurningunni um hvort nota megi kerfið.

Þessi niðurstaða dómarans er þvert á aðra sem féll um sama mál hjá öðrum dómara og eykur það líkurnar á því að málið fari fyrir Hæstarétt Bandaríkjanna.

Sá dómari sagði kerfið líklegast brjóta gegn bandarísku stjórnarskránni og væri næstum því „orwellískt.“ Bandaríska ríkið hefur áfrýjað þeim dómi.

Uppljóstrarinn Edward Snowden upplýsti um þessa hlerunar- og njósnastarfsemi Þjóðaröryggisstofnunarinnar í samstarfi við fjöldamörg önnur ríki og hafa bandarísk stjórnvöld legið undir ámæli vegna þessa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×