Muammar Gaddafi, fyrrverandi einræðisherra Líbíu, lét ræna skólakrökkum sem hann notaði sem kynlífsþræla. Þetta kemur fram í bók um einræðisherrann sem franskur blaðamaður skrifaði.
Í bókinni er meðal annars rætt við stúlku að nafni Soraya sem var rænt þegar hún var fimmtán ára gömul. Næstu fimm ár á eftir var henni haldið sem kynlífsþræli í fangelsi rétt fyrir utan Tripoli.
Soraya segir að henni hafi verið nauðgað nánast daglega eða hún hafi verið misnotuð á annan hátt. Önnur börn hafi gengið í gegnum það sama.
Saga Soraya og annarra barna er sögð í bókinni sem franska blaðakonan Annick Cojean hefur gefið út.
Bókin hefur selst í meira en hundrað þúsund eintökum frá því að hún kom út í Frakklandi en hún verður gefin út á ensku í næsta mánuði.
Cojean, sem starfar sem blaðamaður á Le Monde, segir að Gaddafi hafi bæði misnotað stráka sem stelpur. Hún heldur því líka fram að lífverðirnir sem Gaddafi hafi umkringt sig með hafi í raun verið hjákonur hans sem hafi ekki haft neina vopnakunnáttu.
Gaddafi hélt börnum sem kynlífsþrælum
