Erlent

Hvað er "dogging"?

Mick Philpott, sem dæmdur var í lífstíðarfangelsi í Englandi í gær fyrir að verða valdur að dauða sex barna sinna í íkveikju, tók reglulega þátt í afbrigðilegri kynlífsathöfn sem Bretinn kallar „dogging".

Í dómsúrskurðinum minntist dómarinn á tilraun Philpott til þess að drepa kærustu sína fyrir 35 árum. Þá tilraun hafi hann ítrekað notað til þess að hræða konur yrðu þær ekki við vilja hans. Philpott átti alls sautján börn en fjallað var um dóm Philpott á Vísi í gærkvöldi.

Á miðvikudagskvöldið var sýnd heimildarmynd um þessa sérstöku athöfn á Channel 4 í Bretlandi. Er „dogging" útskýrt sem sú athöfn þegar fólk, tveir eða fleiri, stundar kynlíf á opinberum stöðum á meðan aðrir horfa á.

Blaðamaður The Sun Martin Daubney, sem taldi heimildarmyndina ekki gefa athöfnininni nægilega góð skil, ákvað að komast að því um hvað málið snerist. Eftir töluverða fyrirhöfn komst hann í kynni við mann sem stundaði „dogging". Eftir mikið japl og fuður samþykkti maðurinn, Len, að sýna honum út á hvað málið gengi.

Þeir ákváðu að hittast á öldurhúsi á þriðjudagskvöldi. Á leið sinni úr bílnum og inn á krána spurði miðaldra kona hann: „Eiginmaðurinn minn og ég erum villt. Ratar þú í Langdon Hills?"

Blaðamaðurinn neitaði, sagðist réttilega vera ókunnugur svæðinu, og hélt inn á barinn.

„Þú hefðir verið farinn að stunda kynlíf með henni í runnanum innan tuttugu mínútna," segir Len við undrandi blaðamanninn. Ólíkt öfugugganum sem Daubney reiknaði með var Len snyrtilega klæddur með flott grátt hár, brúnn og leit út fyrir að hafa það gott í lífinu. 48 ára, fráskilinn og eigandi fyrirtækis.

„Sturtum bjórnum í okkur og eltum konuna," segir Len. Daubney, ekki alveg sannfærður, sest upp í glæsilega BMW bifreið Len. Hann segir honum að hann hafi byrjað að stunda athæfið fyrir um sjö árum eftir að hafa þrætt stefnumótasíður í tvö ár.

Eftir skilnaðinn hafi hann viljað skemmta sér. Hann hafi hitt fullt af stelpum og stundað með þeim kynlíf en á endanum orðið leiður á því. Þá hafi hann byrjað að hitta pör sem vilji bæta þriðja hjólinu á vagninn. Já, eða heilu hópana af fólki.

„Svo byrjaði ég á „dogging". Ég elska spennuna sem fylgir því að vera tekinn af lögreglunni. Ég hef verið með allskonar fólki. Lögfræðingum, kennurum og jafnvel lögreglukonum."

Langdon Hills
Félagarnir keyra í áttina að Langdon Hills. Þar sjá þeir tvo menn sitja í bíl sínum sem virðast vera að leika sér með farsímana sína. „Eða ég vona það," segir Daubney. Hann fær þau skilaboð að þegar bílnum sé lagt eigi að hafa kveikt á ljósinu inni í bílnum. „Ef þú vilt eitthvað meira þá blikkarðu ljósunum."

Len segist ekki hafa miklar áhyggjur af því að lögreglan nái til hans. Þannig séu samfélagsmiðlarnir notaðir til þess að vera skrefi á undan lögreglunni sem hafi auk þess mikilvægari málum að sinna.

Eftir tvær klukkustundir er Daubney farinn að gefast upp. Hann hefur ekki orðið vitni að neinu ósæmilegu en þá ákveður Len að halda á annan stað, Landon Common. „Þar er fólk eins og kanínur," segir Len honum.

Og viti menn. Þar er nokkur fjöldi bíla saman kominn. Maður og kviknakin kona stunda þar kynlíf og fólk í bílum. „Þetta heitir leiktu og sýndu (e. play and display)," segir Len um athöfnina. Þá vilji fólkið fá áhorfendur en misjafnt sé hvort þau vilji að fleiri sláist í hópinn eða ekki.

Um leið kemur hettuklæddur maður, ræðir við parið sem hleypur í áttina að bíl sínum og bruna í burtu. „Andskotinn, við vorum of seinir," segir Len.

Skömmu síðar stöðva þeir BMW bifreið sína við vörubíl. Í fjarska byrja fleiri bílar að blikka ljósunum. Um er að ræða skilaboð sem Len kann á. Hann blikkar ljósunum í bílnum.

„Ég er að senda skilaboð. Nú fara hlutirnir að gerast hjá okkur," segir Len. AUgnabliki síðar rennur silfurlitaður Ford Focus upp að BMW-bifreiðinni. Skyndilega slekkur ökumaður Focus-bifreiðarinnar ljósin.

„Nú er komið að okkur. Við kveikjum ljósin svo við getum séð hverjir eru í bílnum. Þá getum við ákveðið okkur hvort við viljum gera eitthvað með þeim. Hvað viltu gera?" spyr Len.

„Kveiktu ljósin. Ef þetta er geðsjúklingur gakktu þá í skugga um að þú blindir hann svo við getum brunað í burtu," segir Daubney.

Len kveikir ljósin. Þá birtist ökumaðurinn, sköllóttur maður á sextugsaldri, sem er aðeins brugðið af ljósunum.

„Hann gæti verið hommi en menn sem eru einir eru oft gerðir út af örkinni af konum sínum sem vilja stunda kynlíf með öðrum mönnum á meðan eiginmaðurinn horfir á," segir Len. Áður en þeir ljúka umræðunni setur ökumaður hins bílsins í bakgír og keyrir í burtu.

Þegar félagarnir eru sestir aftur niður á öldurhúsinu segir Len frá kynnum sínum af ellilífeyrisþega sem hann hitti við „dogging".

„Frábær gæi sem bauð mér í grillveislu. Húsbýlasali sem var farinn á eftirlaun. Hann bauð mér fullan aðgang að eiginkonu sinni," segir Len. Þá hefur Daubney fengið nóg, kveður og heldur heim.

„Eftir kvöldið mun ég aldrei aftur horfa sömu augum á bíl á bílastæði. Ég get líka staðfest að maður þarf að vera snargeðveikur til þess að njóta „dogging"."

Hægt er að lesa umfjöllun The Sun í heild sinni hér.


Tengdar fréttir

Sex börn létust eftir íkveikju föðurins

Enskur faðir hefur verið dæmdur í lífstíðarfangelsi fyrir að standa fyrir því að kveikt yrði í heimili barnsmóður hans í Derby á Englandi. Sex börn hans létu lífið í brunanum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×