Erlent

Mögulega ákveðið í vikunni hvort ráðist verði á Sýrland

Hrund Þórsdóttir skrifar
Aðstandendur syrgja í Sýrlandi.
Aðstandendur syrgja í Sýrlandi.
Bandaríska þingið kemur saman á morgun eftir sumarhlé og greiðir líklega atkvæði um mögulega árás á Sýrland nú í vikunni, bæði í fulltrúadeildinni og í öldungadeild þingsins. Bandarísk stjórnvöld saka þau sýrlensku um að bera ábyrgð á efnavopnaárás í Damaskus, þann 21. ágúst síðastliðinn, sem kostaði yfir 1400 manns lífið. Um hundrað þúsund manns hafa látist í átökunum í Sýrlandi undanfarið tvö og hálft ár.

Barack Obama, Bandaríkjaforseti, hvetur þingið til að standa sameinað í málinu og hefur varað við því að þjóðir heimsins sitji aðgerðalausar hjá ofbeldinu í Sýrlandi. Hans bíður það erfiða verkefni að sannfæra þingið um að heimila hernaðaríhlutun. Samkvæmt könnun fréttastöðvanna BBC og ABC News er yfir þriðjungur þingmanna enn óákveðinn í málinu og meirihluti þeirra sem hafa ákveðið sig hyggjast ekki styðja tillögu forsetans um inngrip.

Bandaríkjamenn fullyrða að stuðningur við aðgerðir í Sýrlandi fari vaxandi og segir John Kerry utanríkisráðherra, að ríki sem séu reiðubúin til að taka þátt í hernaðaraðgerðum gegn sýrlenskum stjórnvöldum séu nú komin á annan tuginn. Þar með styðji í raun fleiri þjóðir aðgerðirnar, en gætu raunverulega tekið þátt í þeim, miðað við fyrirhugaðar áætlanir. "Þetta er ekki tíminn til að vera þögulir áhorfendur að slátrun," hefur Kerry sagt.

ESB ríkin hafa fordæmt notkun efnavopna í sameiginlegri yfirlýsingu utanríkisráðherra þeirra en vilja bíða eftir skýrslu Sameinuðu þjóðanna um efnavopnaárásina í Damaskus áður en gripið verði til aðgerða. Stuðningur Frakka við hernaðaraðgerðirnar er lykilatriði fyrir bandarísk stjórnvöld, en Francois Hollande Frakklandsforseti, segir Frakka munu bíða skýrslunnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×