Erlent

Athygli beint að Sýrlandi

Brjánn Jónasson skrifar
Borgarastyrjöldin í Sýrlandi hefur nú varað í á þriðja ár og kallað dauða og örkuml yfir tugi þúsunda.
Borgarastyrjöldin í Sýrlandi hefur nú varað í á þriðja ár og kallað dauða og örkuml yfir tugi þúsunda. Nordicphotos/AFP
Með þeirri ákvörðun sinni að veita Efnavopnastofnuninni í Haag (OPCW) friðarverðlaun Nóbels er Nóbelsnefndin að beina athygli heimsins að hryllilegum efnavopnum sem eru til í miklu magni enn í dag, en ekki síður að átökunum í Sýrlandi í víðara samhengi.

Efnavopnastofnunin hlaut verðlaunin eftirsóttu fyrir sitt hlutverk við að rannsaka og eyða birgðum sýrlenskra stjórnvalda af taugagasi og öðrum efnavopnum. Verðlaunin voru veitt í Ósló í gær.

Viðbrögð við ákvörðun Nóbelsnefndarinnar létu ekki á sér standa. Louay Safi, háttsettur talsmaður hóps uppreisnarmanna, sagði verðlaunin ekki tímabær og sagðist óttast að þau drægju athyglina frá „raunverulegum ástæðum stríðsins“.

Fayez Sayegh, einn af talsmönnum sýrlenskra stjórnvalda, sagði verðlaunin sigur fyrir stjórn Bashirs Assad, forseta Sýrlands. Hann sagði Sýrland nú ganga á undan með góðu fordæmi fyrir aðrar þjóðir sem búa yfir efnavopnum.

Ahmet Uzumcu
Efnavopnastofnunin var stofnuð árið 1997 til að fylgja eftir banni við notkun efnavopna. Stofnunin hefur aðsetur í Haag í Hollandi og hefur lítið komist í fréttirnar fyrr en Sameinuðu þjóðirnar fengu henni það hlutverk að rannsaka beitingu sýrlenskra stjórnvalda á efnavopnum gegn uppreisnarmönnum í landinu.

„Atburðir í Sýrlandi, þar sem efnavopnum hefur verið beitt, undirstrika nauðsyn þess að leggja enn meira kapp en áður á að eyða þessum vopnum,“ segir í yfirlýsingu Nóbelsnefndarinnar. 

Sýrland hefur þegar samþykkt að gerast aðili að samningi um bann við notkun efnavopna og verður 190. ríkið sem fær aðild að Efnavopnastofnuninni. 

„Atburðirnir í Sýrlandi minna okkur á að það er enn mikið verk óunnið,“ sagði Ahmet Uzumcu, framkvæmdastjóri Efnavopnastofnunarinnar, í gær. 

„Sýrlensk fórnarlömb hryllilegra efnavopnaárása eiga samúð okkar alla. Ég vonast til þess að þessi verðlaun og verkefni Efnavopnastofnunarinnar og Sameinuðu þjóðanna í Sýrlandi muni auka líkur á friði í landinu og binda enda á þær hörmungar sem dunið hafa yfir sýrlensku þjóðina,“ sagði Uzumcu.

Verðlaunaféð, sem jafngildir um 146 milljónum króna, verður nýtt til þeirra verka sem stofnunin sinnir sem hafa það að markmiði að útrýma endanlega öllum efnavopnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×