Enski boltinn

Laudrup: Michu bestu kaup tímabilsins

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Michael Laudrup, stjóri Swansea, segir fá lið hafa efni á að kaupa Spánverjann Michu frá félaginu um þessar mundir.

Laudrup keypti Michu fyrir tímabilið frá Rayo Vallecano fyrir aðeins tvær milljónir punda. Hann hefur síðan þá margfaldast í verði en í gær skoraði hann fyrra markið í 2-0 sigri Swansea á Chelsea í fyrri leik liðanna í undanúrslitum ensku deildabikarkeppninnar.

Michu hefur nú skorað alls sextán mörk á tímabilinu en þessi 26 ára kappi hefur verið einn besti leikmaður ensku úrvalsdeildarinnar í vetur.

„Fyrirfram hefði ég aldrei átt von á því að leikmaður kæmi inn í liðið og myndi skora svona mörg mörk. Ég á þó erfitt með að segja hvaða væntingar ég hafði til Michu," sagði Laudrup við enska fjölmiðla.

„Árangur hans fyrir framan markið er ótrúlegur, sérstaklega miðað við að hann hefur aldrei spilað áður sem sóknarmaður. Hann hafði aðallega spilað sem varnarsinnaður miðjumaður."

„Hann fékk eitt færi gegn Chelsea og skoraði eitt mark. Það gera sóknarmenn í hæsta gæðaflokki og margir sem myndu borga háar fjárhæðir fyrir slíka leikmenn."

„En það er ekki mitt hlutverk að verðleggja leikmenn. En miðað við efnahagsástandið í heiminum í dag eru ekki mörg félög sem hafa efni á að kaupa hann."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×