Erlent

Líkkista til sölu - beinagrind fylgir

Heimir Már Pétursson skrifar
Lögregla í bænum Council Bluffs í Iowa í Bandaríkjunum rannsakar allt óvenjulegt beinamál. Dave Burgstrum auglýsti á Craigslist á fimmtudaginn í síðustu viku líkkistu til sölu með innihaldi sem kæmi á óvart og vildi fá 12.000 dollara, eða um 1,4 milljónir króna fyrir.

Andvirðið átti að nota til að greiða skuldir og skatta Odd Fellow-reglunnar í bænum sem er gjaldþrota. En kistan hafði verið í eigu félagasamtakanna um langa hríð. Burgstrum sagði í auglýsingunni á Craigslist að kistan væri í góðu ásigkomulagi, með bronshöldum og silkuklæðningu að innan. En sá hængur er á málinu að það er ónafngreind beinagrind í kistunni og af þeim sökum gripu lögregluyfirvöld inn í, þar sem það er í bága við lög að selja líkamsleyfar ef ekki er búið að greina af hverjum þær eru.

Kistan hafði verið notuð við athafnir hjá Odd Fellow-reglunni í bænum lengur en elstu menn muna. Burgstrum segir að samkvæmt bókum reglunnar hafi læknir nokkur gefið reglunni beinagrindina einhvern tíma upp úr árinu 1880.

Beinin hafa verið send á rannsóknarstofu fylkislögreglunnar í Iowa en ólíklegt þykir að kennsl verði borin á þann einstakling sem þau tilheyrðu. Burgstrum er hins vegar staðráðinn í að selja kistuna til að safna fé upp í skuldir samtakanna, sem eru aðallega skattaskuldir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×