Enski boltinn

Sir Alex Ferguson: Alltof snemmt að leita að eftirmanni mínum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sir Alex Ferguson.
Sir Alex Ferguson. Mynd/Nordic Photos/Getty
Sir Alex Ferguson, stjóri Manchester United, er harður á því að sitja áfram í stjórastólnum á Old Trafford eftir þetta tímabil og gefur lítið fyrir sögusagnir að hann ætli að hætta í vor. Ferguson er á góðri leið með að gera Manchester United að enskum meisturum í þrettánda sinn.

Ferguson er orðinn 71 árs gamall og hefur verið hjá félaginu í 26 ár. Hann ætlar sér að halda áfram í tvö til þrjú ár til viðbótar og vill ekkert spá fyrir um hugsanlegan eftirmann sinn hjá United.

„Ég lofa ykkur því að það er enginn í sigtinu. Það er alltof snemmt að leita að eftirmanni mínum því ég er að vonast eftir því að sitja áfram í nokkur ár," sagði Sir Alex Ferguson við BBC.

„Það er erfitt að sjá fyrir sér hver tekur við af mér. Menn hafa verið orðaðir við starfið í mörg ár en það er erfitt að sjá slíkt fyrir því fótboltinn er svo óútreiknanlegur," sagði Sir Alex.

„Það verða örugglega margir nefndir til sögunnar þar til að ég hætti. Það veit samt enginn hvar menn eins og Pep Guardiola, Jose Mourinho eða David Moyes verða staddir eftir tvö til þrjú ár. Það er fullt af hæfileikaríkum stjórum til og svo verðum við bara að sjá til hverjir verða í boði eftir tvö til þrjú ár," sagði Ferguson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×