Erlent

Afmælislagið fyrir dómstóla

Boði Logason skrifar
Það er óhætt að segja að afar furðulegt mál sé nú komið til kasta dómstóla í New York í Bandaríkjunum - það sem dómstóllinn þarf að skera úr um er hvort að afmælislagið fræga sé eign almennings eða framleiðslufyrirtækis.

Nokkrir kvikmyndagerðarmenn eru að gera heimildarmynd um afmælislagið, sem á ensku nefnist „Happy Birthday to you“, en kvikmyndagerðarmönnunum var birt stefna á dögunum vegna myndarinnar.

Framleiðslufyrirtækið Warner/Chappell Music segist nefnilega eiga einkarétt á laginu og þeir sem vilji nota lagið opinberlega þurfi að borga þeim gjöld.

En kvikmyndagerðarmennirnir eru ekki sammála þessum rökum, og segja að lagið sé í eign almennings, enda sé það sungið mörg þúsundum sinnum á hverjum degi um allan heim.

Þeir hafa skorað á dómarann í málinu að telja hversu margir hafa borgað framleiðslufyrirtækinu gjöld upp á fimm milljónir dollara. Og þeir vilja að dómarinn úrskurði að öllum sé frjálst að nota lagið í hvers kyns verkefni sem þeim sýnist.

Lagið er án vafa eitt frægasta lag í heimi og er til útgáfa af því á flestum tungumálum. Heimsmetabók Guinness segir að lagið sé frægasta lagið sem sungið er á ensku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×