Erlent

Giftingar samkynhneigðra til umfjöllunar í hæstarétti Bandaríkjanna

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
Það var líf og fjör fyrir framan hæstarétt Bandaríkjanna í Washington í morgun.
Það var líf og fjör fyrir framan hæstarétt Bandaríkjanna í Washington í morgun. Mynd/AP
Tvö prófmál sem snúa að giftingum samkynhneigðra fara fyrir hæstarétt Bandaríkjanna í þessari viku.

Farið verður yfir áfrýjanir laga Kaliforníufylkis, sem og alríkislaga, sem banna giftingar samkynja para.

Skoða þarf fjöldamörg álitamál, eins og til dæmis hvort lagaákvæði í stjórnarskrá Kaliforníu um að hjónaband sé milli karls og konu stangist á við jafnréttisákvæði, og um leið hvort það standist stjórnarskrá Bandaríkjanna.

Ákvæðinu var bætt í stjórnarskrá Kaliforníu eftir að 18 þúsund samkynja pör höfðu látið gefa sig saman í fylkinu.

Stuðningur eykst

Undanfarið hefur stuðningur Bandaríkjamanna við giftingar samkynhneigðra aukist, en 58 prósent landsmanna segjast hlynntir þeim. Kjósendur Demókrataflokksins eru áberandi jákvæðari í garð málefnisins, en 72 prósent þeirra styðja hjónabönd samkynhneigðra á meðan aðeins 34 prósent repúblikana gera það.

Samkynja pör mega aðeins gifta sig löglega í níu fylkjum Bandaríkjanna, en þau eru Connecticut, Iowa, Maine, Maryland, Massachusetts, New Hampshire, New York, Vermont og Washington.

Þá hefur ríkisstjórn Barack Obama hvatt hæstarétt til þess að ógilda bann við giftingum samkynhneigðra. Það hefur Bill Clinton fyrrverandi forseti einnig gert, og eiginkona hans Hillary Clinton, fyrrverandi utanríkisráðherra.

Og innan raða Rebúblikanaflokksins örlar á stefnubreytingu, en Rob Portman, þingmaður Ohio-fylkis, varð á dögunum fyrsti þingmaður flokksins til að lýsa yfir stuðningi sínum við hjónabönd samkynhneigðra. Það gerði hann eftir að sonur hans kom út úr skápnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×