Erlent

Lestarræninginn Ronnie Biggs er látinn

Mynd/AFP
Breski glæpamaðurinn Ronnie Biggs er látinn, áttatíu og fjögurra ára að aldri. Biggs varð heimsþekktur þegar hann tók þátt í lestarráninu mikla árið 1963 þegar hópur manna rændi tæpum þremur milljónum punda úr lest sem flutti póst frá London til Glasgow.

Biggs var handtekinn og dæmdur í þrjátíu ára fangelsi en honum tókst hinsvegar að sleppa úr Wandsworth fangelsi árið 1965. Hann var á flótta í 36 ár og bjó meðal annars á Spáni, Ástralíu og í Brasilíu, en gaf sig fram við lögreglu árið 2001.

Á flóttanum varð Biggs að einhverskonar andhetju hjá breskum almenningi. Hann hafði gaman af sviðsljósinu og sendi bresku lögreglunni reglulega póstkort frá Brasilíu, en engir framsalssamningar voru í gildi á milli landanna og því þurfti hann ekki að fara huldu höfði. Hann gaf meðal annars út hljómplötur og söng lag með pönksveitinni Sex Pistols.

Honum var síðan sleppt úr haldi árið 2009.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×