Erlent

Myrti mann sem hann taldi vera barnaníðing

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
Frá vinstri: Lee James, Stephen Norley, og Bijan Ebrahimi.
Frá vinstri: Lee James, Stephen Norley, og Bijan Ebrahimi.
24 ára breskur karlmaður hefur verið dæmdur í lífstíðarfangelsi fyrir að myrða mann sem hann taldi vera barnaníðing.

Lee James myrti Bijan Ebrahimi í borginni Bristol í júlí og kveikti í líki hans. Ebrahimi, fertugur maður frá Íran, lést af völdum höfuðáverka eftir að James traðkaði ítrekað á höfði hans. „Ég sparkaði í höfuð hans eins og fótbolta, ég var svo reiður,“ sagði James við lögreglu.

Hann mun þurfa að sitja í að minnsta kosti 18 ár í fangelsi, en Stephen Norley var dæmdur í fjögurra ára fangelsi fyrir að aðstoða James við að losa sig við líkið.

Morðið var framið þremur dögum eftir að Ebrahimi var handtekinn vegna kvartana um að hann hefði tekið ljósmyndir af börnum í nágrenni við heimili hans. Lögreglumenn rannsökuðu myndavél hans, myndbönd og tölvu, en fundu ekkert saknæmt og því var Ebrahimi látinn laus án ákæru.

James hafði haft í hótunum við Ebrahimi fyrir morðið, sem hafði tilkynnt hótanirnar til lögreglu, en í ljós kom að þeim tilkynningum hafði ekki verið sinnt. Þrír lögreglumenn eru nú til rannsóknar vegna gruns um vanrækslu í starfi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×