Erlent

Um 500 drepnir í loftárásum

Freyr Bjarnason skrifar
Sýrlenskur maður syrgir ástvin sinn eftir eina af fjölmörgum loftárásum á Aleppo.
Sýrlenskur maður syrgir ástvin sinn eftir eina af fjölmörgum loftárásum á Aleppo. Mynd/AP
Að minnsta kosti 21 manneskja fórst í loftárás á vegum sýrlensku ríkisstjórnarinnar sem var gerð á grænmetismarkað í borginni Aleppo í Sýrlandi á laugardag.

Uppreisnarmenn halda til í hverfinu þar sem markaðurinn var starfræktur.

Herþotur og þyrlur á vegum forsetans Bashars Assad hafa ítrekað gert loftárásir á hverfi uppreisnarmanna í Aleppo undanfarnar tvær vikur. Aðgerðasinnar telja að um fimm hundruð manns hafi verið drepnir í loftárásum síðan þær hófust fimmtánda desember.

Alþjóðleg friðarráðstefna verður haldin 22. janúar í Sviss þar sem reynt verður að finna friðsamlega lausn á sýrlensku borgarastyrjöldinni. Sumir telja að loftárásirnar á Aleppo séu hluti af áætlun Assads um að sýna fram á veikleika uppreisnarmanna og styrkja um leið stöðu sína fyrir samningaviðræðurnar.

Tvö flutningaskip frá Danmörku og Noregi, ásamt herskipum sem munu fylgja þeim, bíða á hafnarbakka á Kýpur eftir leyfi til að geta siglt til Sýrlands og flutt þaðan í burtu yfir eitt þúsund tonn af efnavopnum. Þaðan verða þau flutt til Ítalíu þar sem skip á vegum bandaríska sjóhersins mun eyða þeim.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×