Erlent

Risastórt verkefni NASA

Vísindamenn bandarísku geimferðastofnunarinnar munu á næstu árum freista þess að snara nokkur hundruð tonna smástirni og draga í átt að jörðu. Markmiðið er að rýna í efnasamsetningu slíkra steina og um leið auðvelda mannkyni að verjast mögulegum loftsteinaárekstri í framtíðinni.

Það var bandaríski þingmaðurinn Bill Nelson sem greindi frá þessu í samtali við fjölmiðla vestanhafs í gær. Nelson, sem gegnir formennsku í vísinda- og geimferðanefnd öldungadeildar bandaríska þingsins, sagði að hundrað milljónum dala úr fjárlögum fyrir næsta ár yrði ráðstafað í verkefnið. Þetta er þó aðeins brotabrot af áætluðum raunkostnaði.

NASA vonast til að ýta verkefninu úr vör árið tvö þúsund og nítján. Í stuttu máli er verklýsingin þessi. Fjarstýrt geimskip mun nálgast fimm hundruð og fimmtíu tonna smástirni og snara. Geimfarið mun síða nota sólvinda til að fleyta smástirninu áleiðis í átt að jörðinni og á endanum leggja því á sporbraut um tunglið.

Árið tvö þúsund tuttugu og eitt munu síðan fjórir geimfarar lenda á smástirninu og hefja rannsóknarstörf. Fyrst af öllu verður rýnt í efnasamsetningu steinsins.

Markmið verkefnisins eru margþætt en meðal annars vonast NASA til að hefja prófanir á tækjabúnaði og tækni sem á endanum mun flytja geimfara til Mars. Þá munu rannsóknir á smástirninu einnig varpa ljósi á það hvernig mannkyn gæti varist mögulegum loftsteinaárekstri í framtíðinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×