Erlent

Erfitt að halda haus

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar

Skeggjaði geimfarinn Chris Hadfield hefur vakið athygli undanfarið fyrir skemmtileg myndbönd og tíst úr Alþjóðlegu geimstöðinni.

Þessi vinalegi Kanadamaður sýndi lesendum Vísis meðal annars hvað gerist þegar maður vindur tusku í geimnum, og í síðustu viku sendi hann frá sér tónlistarmyndband þar sem hann spreytti sig á David Bowie-slagaranum Space Oddity.

Nú er hann hins vegar kominn til jarðar, allavega í bili, og ræddi við BBC um það hvernig geimfari aðlagast jörðinni á ný eftir langa dvöl í geimnum.

„Þetta er ruglingslegt fyrir líkamann,“ segir Hadfield og talar meðal annars um það hve erfitt sé að halda haus eftir marga mánuði í þyngdarleysi.

„Líkami minn var mjög ánægður í geimnum. Þar geturðu tekið heljarstökk og hreyft ísskápa með einum fingri, og þarft aldrei að hugsa um hvað snýr upp.“

Hadfield talar um svima eftir heimkomuna og segir að líkaminn hafi nánast gleymt því hvernig hann flytur blóðið til heilans. Hann segir frá lendingunni í Kasakstan og eftirminnilegustu ljósmyndinni sem hann tók í geimstöðinni.

Þessi hrífandi frásögn geimfarans er í spilaranum hér fyrir ofan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×