Erlent

ESB ævareitt vegna meintra njósna á skrifstofum sambandsins

Jóhannes Stefánsson skrifar
Schulz segir að reynist ásakanir á hendur bandarískum yfirvöldum réttar muni það hafa mjög afdrifaríkar afleiðingar.
Schulz segir að reynist ásakanir á hendur bandarískum yfirvöldum réttar muni það hafa mjög afdrifaríkar afleiðingar. AFP/AP
Embættismenn Evrópusambandsins eru ævareiðir vegna frétta um það að þjóðaröryggisstofnun Bandaríkjanna, NSA, hafi komið fyrir njósnabúnaði á skrifstofum sambandsins.

Sambandið hefur lýst því yfir að reynist þessar ásakanir réttar muni það hafa í för með sér gríðarlegt bakslag fyrir Bandaríkin.

„Ég hef þungar áhyggjur og er í áfalli vegna fregnanna," sagði Martin Schulz, forseti Evrópuþingsins í yfirlýsingu vegna málsins. „Ef þessar ásakanir reynast réttar væri það grafalvarlegt mál sem myndi hafa víðtæk áhrif á samband Evrópu og Bandaríkjanna. Fyrir hönd Evrópuþingsins fer ég fram á að málið verði skýrt og að bandarísk stjórnvöld bregðist hratt við og veiti upplýsingar vegna ásakananna."

Dómsmálaráðherra Þýskalands, Sabine Leuthesser-Schnarrenberger sagði „ef ásakanirnar eru sannar væri líkt og í Kalda stríðinu," en hún hefur farið fram á að málið verði skýrt án tafar.

Der Spiegel heldur því fram í fréttum sínum að það hafi „að hluta" séð skjöl frá Snowden sem sýni fram á að NSA hafi komið fyrir hlerunarbúnaði á skrifstofum Evrópusambandsins í Washington og New York auk þess sem stofnunin hafi beitt „rafrænum njósnum" á skrifstofubyggingu Evrópusambandsins í Brussel.

Ráðgjafi Hvíta hússins í þjóðaröryggismálum, Ben Rhodes, sagði að hann hefði ekki séð umrædd skjöl og að hann „myndi ekki tjá mig um óheimilar upplýsingar um njósnaverkefni. Réttast væri að eftirlitssamfélagið myndi gera það."

Nánar er sagt frá málinu á vef CNN.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×