Erlent

Afbrýðisamur eiginmaður skaut sjónvarpsmann

Íbúi í Montana-fylki í Bandaríkjunum skaut sjónvarpsmann til bana í því sem virðist hafa verið afbrýðisemiskast í gær. Sjónvarpsmaðurinn var í heimsókn hjá eiginkonu skotmannsins.

Því næst sló hinn 41 árs gamli Wayne Bengston konuna sína, fór með tveggja ára son þeirra til ættingja áður en hann tók eigið líf. „Málinu er svo gott sem lokið. Morð og sjálfsmorð," segir yfirlögregluþjónn í borginni Helenu.

Hinn látni, Gregory G. Rodriguez, gat sér gott orð fyrir veiðiþætti sína sem sýndir voru í sjónvarpi. Eiginkona Bengston segir að Rodriguez hafi verið að sinna viðskiptum í bænum en sjálfur bjó hann í Texas. Hann hafði litið við hjá móður hennar þar sem frú Benston var í heimsókn.

Rodriguez og konan höfðu kynnst fyrir tilviljun á viðskiptahátíð og náð vel saman. Samband þeirra var þó ekki talið rómantískt að sögn lögreglu. Þau Rodriguez sátu við eldhúsborðið og sötruðu vín þegar Bengston birtist óvænt og skaut Rodriguez. Þá þurfti að gera að sárum konunnar á sjúkrahúsi en mátti fara litlu síðar.

„Ég held að við séum bara að tala um afbrýðissaman eiginmann," er haft eftir yfirlögregluþjóninum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×