Erlent

Klessti á kýr á fleygiferð

Samúel Karl Ólason skrifar
Kýrnar hlupu yfir veginn þegar Amanda nálgaðist.
Kýrnar hlupu yfir veginn þegar Amanda nálgaðist. Skjáskot úr myndbandi
Ung kona frá Bandaríkjunum að nafni Amanda Roden var að skemmta sér við að þjóta niður fáfarinn veg í Washington ríki í Bandaríkjunum á löngu hjólabretti (Longboard). Skemmtiferð þessi endaði þó ekki vel þar sem Amanda lenti í árekstri við tvær kýr sem voru á veginum.

Huffington Post hefur eftir Amöndu að hún hafi verið á um 45-60 kílómetra hraða og hún hafi ekki séð þær kýrnar nægilega snemma. „Þá var ég að fara að lenda á þeim. Mér fannst of áhættusamt að reyna að komast fram hjá þeim ef ein þeirra skyldi ýta mér út af veginum, þar sem fallið væri mikið og í grjóti. Þannig að setti höfuðið fyrir mig og vonaði það besta,“ segir Amanda.

Hún lenti utan í kú og skall svo á aðra. Þá féll myndavél hennar af henni, buxurnar hennar rifnuðu mikið og hún fékk klauflaga mar á lærið og ör á annan handlegginn. „Eftir þetta héldu kýrnar sér frá veginum og þær bauluðu reiðilega þegar þær hlupu í burtu.“

Amanda tók salibununa upp á myndband sem hægt er að sjá hér að neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×