Erlent

Vilja endurskoða lög um bann við kynlífi samkynhneigðra

Samúel Karl Ólason skrifar
Margir hafa mótmælt úrskurði hæstaréttar í Indlandi.
Margir hafa mótmælt úrskurði hæstaréttar í Indlandi. Mynd/AP
Ríkisstjórn Indlands hefur sent hæstarétti landsins beiðni um að endurskoða bann við kynlífi samkynhneigðra í landinu. Hæstiréttur hafði snúið við dómi lægri réttar frá árinu 2009 og þannig gert 153 ára gömul lög virk, sem sögðu kynlíf samkynhneigðra vera ónáttúrlegt og gerðu það refsivert með tíu ára fangelsisvist.

Ríkisstjórnin fór fram á þetta í ljósi þess að lögin brjóti gegn grundvallaratriðum jafnréttis. Frá þessu er sagt á vef BBC. Eftir að hæstiréttur skilaðu úrskurði sínum þann 11. desember hafa mótmæli brotist út og margir hafa mótmælt lögunum, þar á meðal meðlimir ríkisstjórnar Indlands.

„Ríkisstjórnin bað um endurskoðun á Section 377 (lögunum) hjá hæstarétti í dag. Við skulum vona að réttinum til persónulegs vals verði haldið uppi,“ sagði Dómsmálaráðherra Indlands, Kapil Sibal, á twitter í dag. Í beiðninni til hæstaréttar segir að staða ríkisstjórnarinnar sé sú að dómurinn árið 2009 sé réttur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×