Erlent

Michael Jordan getur ekki selt húsið sitt

mynd/nordicphotos/getty
Það gengur hvorki né rekur hjá körfuboltastjörnunni fyrrverandi Michael Jordan, að selja húsið sitt. Eignin er búin að vera í tvö ár á sölu án þess að viðundandi tilboð hafi borist og í gær var reynt að selja húsið á uppboði, án árangurs.

Jordan vildi í upphafi fá um það bil þrjá og hálfan milljarð fyrir villuna, sem er að vonum glæsileg, en síðan lækkaði verðið niður í tvo og hálfan milljarð, en allt hefur komið fyrir ekki.

Húsið, sem er í úthverfi Chicago borgar, þar sem Jordan gerði garðinn frægan á sínum tíma með NBA liðinu Chicago Bulls hentar nú reyndar ekki öllum. Það er samtals fimmþúsund og tvöhundruð fermetrar að flatarmáli. Í því eru níu svefnherbergi og fimmtán baðherbergi og bílskúrinn rúmar fjórtán bíla eða svo. Landareignin sjálf er um tveir hektarar.

Rúsínan í pylsuendanum er síðan innanhúskörfuboltavöllur í fullri stærð. Sú rúsína er þó einmitt sögð standa í veginum fyrir því að húsið seljist, það séu ekki margir að leita sér að húsi með innbyggðum körfuboltavelli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×