Innlent

DV feðgar aftur dæmdir fyrir meiðyrði

Fanney Birna Jónsdóttir skrifar
Jón Trausti Reynisson framkvæmdastjóri DV, Ingi Freyr Vilhjálmsson fréttastjóri og Reynir Traustason ritstjóri DV.
Jón Trausti Reynisson framkvæmdastjóri DV, Ingi Freyr Vilhjálmsson fréttastjóri og Reynir Traustason ritstjóri DV.
DV-feðgarnir Reynir Traustason og Jón Trausti Reynisson voru í dag dæmdir af Héraðsdómi Reykjavíkur til að greiða Hans Aðalsteini Helgasyni 200 þúsund krónur í miskabætur vegna umfjöllunar blaðsins um tekjur hans þar sem blaðið tengdi hann við liðsmenn Hells Angels, Outlaws og liðsmenn stuðningsmannaklúbba þessara félaga auk þekktra ofbeldismanna.

Greint var frá mánaðartekjum Hans Aðalsteins, ásamt fjögurra annarra manna, sem þá voru ákærðir fyrir að hafa svikið tugmilljónir út úr Íbúðalánasjóði.

Dómurinn ómerkti nokkur ummæli í frétt DV og var Reyni og Jóni Trausta, auk miskabótanna, gert að greiða Hans Aðalsteini 500 þúsund krónur í málskostnað og auk þess 100 þúsund krónur í sekt til ríkissjóðs.

Ummælin sem ómerkt voru eru:

„Láglaunamenn í undirheimum“

„Mánaðarlaun opinberra meðlima í íslenskum undirheimasamtökum ekki há“

„Liðsmenn félaga sem íslensk lögregluyfirvöld hafa sett á athugunarlista yfir samtök sem stunda skipulagða glæpastarfsemi eru ekki með há laun miðað við álagningarskrá ríkisskattstjóra“

„DV kannaði laun nokkurra einstaklinga sem opinberlega hafa verið kenndir við eða kenna sig sjálfir við samtök sem sögð eru tengjast skipulagðri glæpastarfsemi“

„Meðal annars kannaði DV tekjur liðsmanna Hells Angels“

„Laun í undirheimum“

„Hans Aðalsteinn Helgason tengist Hells Angels 277“

Katrín Smári Ólafsdóttir, lögmaður feðganna, sagði í samtali við Vísi að hún væri ekki búin að funda með umbjóðendum sínum og verður það gert á morgun, þar af leiðandi er ekki búið að taka ákvörðun um áfrýjun.

Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, lögmaður Hans, segist fagna þessari niðurstöðu.

„Hún er mikilvæg fyrir umbjóðanda minn og enn á ný eru DV feðgar dæmdir fyrir ærumeiðingar,“ sagði Vilhjálmur í samtali við Vísi.

Vísar hann þar til nokkurra meiðyrðamála sem DV hefur tapað á undanförnum árum, síðast í gær þar sem Reynir Traustason og Ingi Freyr Vilhjálmsson fréttastjóri DV voru dæmdir til að greiða Jóni Þorsteini Jónssyni, fyrrverandi stjórnarmaður Byrs, 300 þúsund krónur í miskabætur, 400 þúsund til birtingar dómsins í fjölmiðlum og tæplega 1,4 milljónir í málskostnað.

DV, stjórnendur þess og blaðamenn hafa nokkuð oft á undanförnum árum gerst sekir um meiðyrði samkvæmt dómstólum.

Í mars 2012 voru feðgarnir og Ingi Freyr dæmdir í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrir meiðyrði í máli sem höfðað var af Jóni Snorra Snorrasyni fyrir frétt í DV með fyrirsögninni „Lögreglan rannsakar lektor.“ Var þeim gert að greiða 200 þúsund krónur í miskabætur, ásamt 200 þúsund vegna birtingar dómsins í fjölmiðlum og 500 þúsund í málskostnað. Dómurinn var staðfestur af Hæstarétti sem gerði þremenningunum að greiða 500 þúsund krónur til viðbótar í málskostnað fyrir Hæstarétti.

Þá vakti mikla athygli þegar blaðamaður DV, Jón Bjarki Magnússon, var árið 2011 sakfelldur fyrir meiðyrði í frétt sem fjallaði um nágrannaerjur í Garðabæ. Þar var meðal annars vísað í dóm sem kona hlaut árið 1989 og taldi héraðsdómur að ósmekklegt hefði verið að draga þann dóm inn í umfjöllun um málið. Jóni Bjarka var gert í Hæstarétti að greiða konunni 300 þúsund í miskabætur, auk 800 þúsund króna í málskostnað.

Þess skal getið að blaðamenn og stjórnendur DV hafa á þessum árum einnig verið sýknaðir af nokkrum meiðyrðamálum.


Tengdar fréttir

DV-menn dæmdir fyrir meiðyrði

DV tapaði meiðyrðamáli í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag en Jón Þorsteinn Jónsson, fyrrum stjórnarmaður Byrs Sparisjóðs, höfðaði mál vegna forsíðufréttar sem birtist í blaðinu þann 13. nóvember árið 2012.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×