Innlent

DV-menn dæmdir fyrir meiðyrði

Stefán Árni Pálsson skrifar
Reynir Traustason, Ingi Freyr Vilhjálmsson og Jón Þorsteinn Jónsson.
Reynir Traustason, Ingi Freyr Vilhjálmsson og Jón Þorsteinn Jónsson.
DV tapaði meiðyrðamáli í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag en Jón Þorsteinn Jónsson, fyrrum stjórnarmaður Byrs Sparisjóðs, höfðaði mál vegna forsíðufréttar sem birtist í blaðinu þann 13. nóvember árið 2012.

Forsíðufréttin umrædda hafði fyrirsögnina „Laumaði stórfé úr landi" og höfðaði Jón Þ. Jónsson í kjölfarið mál gegn Reyni Traustasyni, ritstjóra DV, og Inga Frey Vilhjálmssyni, blaðamanni.

Alls voru fimm atriði í umræddri frétt dæmd ómerk, sem og þrjár fyrirsagnir.

Reynir Traustason og Ingi Freyr þurfa að greiða 300.000 krónur í miskabætur.

Krafa stefnanda um að Reynir og Ingi Freyr verði dæmdir óskipt til að greiða 400.000 krónur til að standa straum af birtingu dómsins og forsendna hans í tveimur dagblöðum, Morgunblaðinu og Fréttablaðinu, og tveimur netmiðlum, www.visir.is og www. mbl.is, til að tryggja nægjanlega útbreiðslu dómsins var staðfest í dag.

Ingi Freyr og Reynir þurfa einnig að greiða óskipt málskostnað stefnanda sem er tæplega 1,4 milljónir íslenskra króna, að meðtöldum virðisaukaskatti af málflutningsþóknun, 275.000 krónum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×