Innlent

Réttað í máli Hilmars Leifssonar gegn DV feðgum

Fanney Birna Jónsdóttir skrifar
Hilmar Leifsson í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag.
Hilmar Leifsson í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag.
Meiðyrðamál Hilmars Leifssonar gegn feðgunum Reyni Traustasyni og Jóni Trausta Reynissyni var flutt í dag.

Hilmar stefndi ritstjórum DV vegna fréttar sem birt var í ágúst árið 2012.

Þar var fullyrt að Hilmar Þór tengdist eða hafi tengst glæpasamtökunum Hells Angels og að hann væri félagi í samtökunum sem stunduðu skipulagða glæpastarfsemi. Í fréttinni sagði ennfremur að Hilmar væri háttsettur í stærstu glæpasamtökum heims.

Hilmar var nafngreindur í frétt DV og upplýst að mánaðarlaun hans væri 19 þúsund krónur.

Í stefnu málsins sagði að fréttin yrði ekki skilin öðruvísi en svo að framangreind mánaðarlaun væru vegna starfa hans í undirheimunum.

Hilmar mætti í aðalmeðferð málsins í dag til að gefa skýrslu.

Í morgun var einnig aðalmeðferð í meiðyrðamáli Hans Aðalsteins Helgasonar gegn sömu aðilum, en DV birti sambærilega frétt um tekjur Hans Aðalsteins. Í þeirri frétt kom fram að miðillinn hafi kannað tekjur liðsmanna Hells Angels, Outlaws, liðsmanna stuðningsklúbba þessara félaga auk þekktra ofbeldismanna.

Greint var frá mánaðartekjum Hans Aðalsteins, ásamt fjögurra annarra manna, sem þá voru ákærðir fyrir að hafa svikið tugmilljónir út úr Íbúðalánasjóði.

Lögmaður mannanna er Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, bróðir Inga Freys Vilhjálmssonar, fréttastjóra DV.

Hilmar Leifsson er ósáttur við að hafa verið bendlaður við skipulögð glæpasamtök.
.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×