Ítalski fjölmiðillinn Tuttosport hefur veitt Paul Pogba, leikmanni Juventus, viðurkenningu sem besti ungi leikmaður Evrópu.
Viðurkenningin nefnist Golden Boy og er þetta í ellefta sinn sem hún er veitt. Meðal fyrri þeirra sem hafa verið útnefndir eru Mario Balotelli, Sergio Agüero og Lionel Messi.
Paugba er tvítugur Frakki sem hefur slegið í gegn með Juventus á Ítalíu. „Ég vann deildina á mínu fyrsta ári hér og við komumst í 8-liða úrslit Meistaradeildarinnar. Ég vann HM U-20 með Frakklandi og var valinn í A-landsliðið.“
„Þetta hefur verið frábært ár og ég vona að þetta haldi áfram á árinu 2014. Ég vil vinna allt sem hægt er að vinna með Juve en samkeppnin er auðvitað mikil. Við ætlum okkur langt í Meistaradeildinni og gera betur en á síðasta tímabili.“
