Erlent

1,7 milljónir barna á vergangi eftir fellibylinn á Filippseyjum

Þorgils Jónsson skrifar
Ástandið er víða slæmt á Filippseyjum, en dreifing hjálpargagna hefur gengið vel síðustu daga.
Ástandið er víða slæmt á Filippseyjum, en dreifing hjálpargagna hefur gengið vel síðustu daga. Mynd/AFP
Neyðaraðstoð á hamfarasvæðunum í Filippseyjum eftir yfirreið fellibyljarins Hayian er í fullum gangi og hefur dreifing hjálpargagna miðað vel síðustu daga.

Yfir 200.000 manns hafa nú aðgang að hreinu drykkjarvatni í Tacloban á Filippseyjum, en UNICEF og aðrar Sameinuðu þjóðanna hafa unnið að því ásamt stjórnvöldum að koma fólki á hamfarasvæðunum til hjálpar. Að auki hafa tæplega 50.000 manns í Cebu og Capiz fengið aðgang að drykkjarhæfu vatni, að því er fram kemur í tilkynningu frá UNICEF.

Lyfjum og sjúkragögnum sem nýtast nærri 100.000 manns hefur auk þess verið dreift í Tacloban, Roxas og Ormoc og 18.000 manns hafa fengið nauðsynleg hreinlætisgögn. Auk þess hefur UNICEF komið upp salernisaðstöðu í neyðarskýlum á svæðinu. Í Guiuan, þar sem fellibylurinn gekk á land, hafa 10.000 manns fengið vatnsílát og töflur til að gera vatn öruggt til drykkjar.

Í dag var svo sápum, salernispappír og öðru sem nauðsynlegt er til að tryggja hreinlæti og koma í veg fyrir útbreiðslu farsótta dreift til 1.000 fjölskyldna í Cebu. Miklu magni annarra nauðsynja verður útdeilt í dag og hefur verið dreift seinustu daga. Enn fleiri hjálpargögn eru auk þess á leiðinni.

Fjöldi barna á Filippseyjum sem er á vergangi hefur nú náð 1,7 milljón og er mikil þörf á því að hefja umfangsmiklar bólusetningaraðgerðir til að koma í veg fyrir mislinga og aðra smitsjúkdóma. UNICEF hefur þegar hafist handa við að útvega bóluefni fyrir börn á hamfarasvæðinu öllu, auk þess sem börn munu fá A-vítamín til að efla ónæmiskerfi þeirra og draga úr líkum á sýkingum.

Neyðarsöfnun UNICEF á Íslandi er enn í fullum gangi. Hægt er að leggja hjálparstarfi UNCEF lið með því að senda sms-ið BARN í númerið 1900 og styrkja þannig söfnunina um 1900 krónur.

„Mikill gangur er í hjálparstarfinu og við náum sífellt að koma fleiri börnum til hjálpar. Þörfin er hins vegar gríðarleg og mikið starf óunnið,“ segir Stefán Ingi Stefánsson, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi, í tilkynningunni.

„Allt okkar starf byggist á frjálsum framlögum og því er frábært hversu margir hafa lagt okkur lið nú þegar. Við vonum sannarlega að það haldi áfram.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×