Fótbolti

FIFA tekur fyrir hegðun Króata eftir sigurinn á Íslandi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Josip Simunic.
Josip Simunic. Mynd/NordicPhotos/Getty
Aganefnd Alþjóðaknattspyrnusambandsins, FIFA, hefur ákveðið að taka inn á borð hjá sér hegðun Króata eftir sigurinn á Íslandi í seinni umspilsleiknum um laust sæti á HM í Brasilíu. Króatía tryggði sér sæti á HM með 2-0 sigri.

Josip Simunic, varnarmaður Króatíu og fjölmargir stuðningsmenn króatíska landsliðsins notaði fræga nasistakveðju til þess að fagna sigrinum á Íslandi en það er til myndband af Josip Simunic þar sem hann tekur hljóðnema eftir leikinn og kallar til hörðustu stuðningsmannanna: „Fyrir ættjörðina." Stuðningsmennirnir svöruðu á móti: „Tilbúnir."

Þetta er fræg kveðja frá dögum Ustase-hreyfingarinnar sem var Nasistahreyfing sem réði ríkjum í seinni heimsstyrjöldinni þegar þúsundir gyðinga, Serba og aðrir létust í útrýmingarbúðum í Króatíu.

Illugi Jökulsson skrifar um þýðingu kveðjunnar inn á pressunni þar sem hann segir að heróp SimuniC hafi verið til stuðnings einni viðurstyggilegustu morðvél sögunnar. Það er hægt að sjá grein Illuga með því að smella hér.

Króatíska knattspyrnusambandið hefur þegar sektað Simunic um tæpar 400 þúsund krónur íslenskar en hann neitar með öllu að þessi hegðun sín hafi verið pólísk heldur aðeins tákn um ást sína á þjóð sinni.

FIFA beið eftir skýrslu dómara leiksins áður en hún tók þá ákvörðun að taka málið fyrir. Það er sérstök herferð í gangi hjá FIFA á móti rasisma. Það lítur nú út fyrir að þessi 35 ára gamli varnarmaður sé á leiðinni í bann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×