Erlent

Skelfingarástand ríkir í Mið-Afríkulýðveldinu

Bjarki Ármannsson skrifar
Ungur maður í Mið-Afríkulýðveldinu vopnaður AK-47 riffli.
Ungur maður í Mið-Afríkulýðveldinu vopnaður AK-47 riffli. AP

Ótrúleg mannréttindabrot og aukin útbreiðsla sjúkdóma eru fylgifiskar hina blóðugu átaka sem standa yfir í Mið-Afríkulýðveldinu. Nú þegar rúmlega hálft ár er liðið frá því að uppreisnarhópurinn Seleka steypti ríkisstjórn landsins af stóli hafa aðstæður innfæddra aldrei verið verri og fátt bendir til þess að þjóðinni berist hjálp annars staðar frá.

Seleka hópurinn komst til valda í mars síðastliðnum þegar François Bozizé,  forseti landsins, flúði höfuðborgina og Michel Djotodia, einn uppreisnarmanna, tilkynnti að hann hefði tekið við embætti forseta. Átök í landinu höfðu þá staðið yfir lengi milli Seleka, sem eru múslimar, og hins kristna meirihluta þjóðarinnar.

Ástandið skánaði ekki við valdatöku Seleka og í september síðastliðnum var hópurinn opinberlega leystur upp. Margir uppreisnarmannanna neituðu þó að leggja niður vopn og hófu þess í stað stjórnlausar árásir á almenna borgara í landinu.

Breska blaðið The Guardian segir frá því að þorpsbúar í sveitum Mið-Afríkulýðveldisins hafi þurft að horfa upp á hópaftökur, fólki sé hent lifandi fyrir krókódíla og börn allt að átta ára gömul séu neydd til þess að ganga til liðs við Seleka sveitirnar.

Til að bæta gráu ofan á svart er nánast ómögulegt að halda úti heilbrigðisþjónustu í landinu eins og ástandið er nú. Alþjóðlegu samtökin Læknar án landamæra telja að í landinu hafi búið um 11,000 einstaklingar með HIV-vírusinn fyrir byltingu, sem nú fá ekki lengur lyf sín. Auk þess er gríðarmikil malaríuhætta í landinu.

Mjög erfitt er að meta hversu margir hafa látið lífið á síðustu mánuðum. Að sögn The Guardian er landið að mestu leiti án nokkurrar löggæslu, en í sumar mat blaðið að aðeins 200 lögreglumenn störfuðu enn í Mið-Afríkulýðveldinu. Þess má geta að í landinu búa um 4.6 milljónir manna. Ofan á það búa fjölmargir þorpsbúar við niðamyrkur að nóttu til, en National Geographic hélt því fram árið 2008 að ljósmengun væri hvergi minni í heiminum en í Mið-Afríkulýðveldinu. Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.