Innlent

Handtöku Hjördísar Svan frestað

Fanney Birna Jónsdóttir skrifar
Handtökumáli Hjördísar Svan Aðalheiðardóttur hefur verið frestað af Héraðsdómi Reykjavíkur.

Málið var tekið fyrir á mánudag, eins og Fréttablaðið greindi frá á þriðjudag, og var búist við niðurstöðu í þessari viku. Hjördís flúði frá Danmörku til Noregs, þar sem hún fór huldu höfði hjá íslenskum presti í Noregi þar til hún gat útvegað flugvél til að flytja hana og dætur hennar til Íslands.

Faðirinn fer með forsjá dætra þeirra og hafa dönsk yfirvöld hafa send handtökubeiðni til íslenskra stjórnvalda sem Ríkissaksóknari sér um að fullnusta. Telja faðirinn og dönsk yfir völd að flutningur Hjördísar með stúlkurnar til Íslands brjóti í bága við dönsk lög.

Ákvörðun danska dómarans að gefa út handtökuskipun hefur verið áfrýjað í Danmörku og á þeim grundvelli frestaði Héraðsdómur málinu í morgun.

Ekki er ljóst hvenær málið verður tekið fyrir aftur.

Hjördís hefur verið í áralangri forsjárdeilu við barnsföður sinn og voru dætur þeirra tvær meðal annars teknar af móðurinni með lögregluvaldi sumarið 2012 og fluttar til Danmerkur.

Danskur dómstóll dæmdi föðurnum svo fulla forsjá í september á síðasta ári.

Ríkissaksóknari gaf í kjölfar beiðninnar frá Danmörku út handtökuskipun á hendur Hjördísi sem síðan var afturkölluð á grundvelli mannúðarástæðna.

Handtökuskipunin var síðan endurútgefin og er nú tekist á um málið fyrir dómstólum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×