Erlent

Ætla að klippa á fjármagn til Gullinnar dögunar

Þorgils Jónsson skrifar
Gríska þingið ætlar að freista þess í dag að loka á opinber framlög til þjóðernissinnaflokksins Gullinnar dögunar.
Gríska þingið ætlar að freista þess í dag að loka á opinber framlög til þjóðernissinnaflokksins Gullinnar dögunar. Mynd/AP
Gríska þingið mun líklega samþykkja síðar í dag að loka á úthlutun opinbers fjármagns til Gullinnar dögunar, flokks þjóðernissinna.

Gullin dögun naut nokkurs fylgis í síðustu þingkosningum þar sem þeir náðu að nýta sér óánægju og óöryggi almennings í yfirstandandi efnahagsþrengingum. Félagsmenn hafa þó þótt fara yfir strikið, meðal annars með yfirlýsingum gegn innflytjendum.

Steininn tók þó úr eftir að vinstri sinnaður tónlistarmaður var myrtur fyrir skemmstu, og er félagsmaður í Gullinni dögun grunaður um verknaðinn.

Síðan þá hafa yfirvöld hert tökin á flokknum og eru nú 22 félagar, þar á meðal formaður hans og tveir þingmenn, nú í haldi lögreglu.

Frumvarpið sem liggur fyrir, gefur heimild til að frysta um óákveðinn tíma, framlög til flokka, ef forystufólk þeirra sætir ákærum fyrir þátttöku í glæpum eða hryðjuverkastarfsemi.

Fastlega er búist við því að frumvarpið hljóti brautargengi þar eð það nýtur meðal annars stuðnings stjórnarflokkanna og stærsta stjórnarandstöðuflokksins. Samtals eru 241 þingmaður af 300 taldir munu styðja málið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×