Óvíst er hver tekur við fyrirliðabandinu hjá íslenska kvennalandsliðinu í knattspyrnu sem Katrín Jónsdóttir hefur borið undanfarin ár.
Katrín lagði skóna á hilluna á dögunum en 2-0 tapleikurinn gegn Sviss var hennar síðasti. Þegar Katrínar naut ekki við undanfarin misseri kom það í hlut Söru Bjarkar Gunnarsdóttur að bera fyrirliðabandið.
Landsliðsþjálfarinn Freyr Alexandersson vildi ekki upplýsa blaðamann um hver tæki við fyrirliðabandinu á fundi í húsakynnum Knattspyrnusambands Íslands í dag. Hann sagðist ætla að tilkynna leikmönnum ákvörðun sína þegar hópurinn hittist í Serbíu.
Sara Björk kemur sterklega til greina sem nýr fyrirliði og það gerir Margrét Lára Viðarsdóttir einnig.

