Erlent

Handaafskurður og húðstrýkingar í hegningarlög Brúnei

Þorgils Jónsson skrifar
Soldáninn í Brúnei, Hassanal Bolkiah, tilkynnti um ný og strangari hegningarlög í landinu í dag.
Soldáninn í Brúnei, Hassanal Bolkiah, tilkynnti um ný og strangari hegningarlög í landinu í dag. Mynd/AP
Lögbrjótar í smáríkinu Brúnei eiga ekki von á góðu eftir að Sjaría-lög verða tekin upp þar í landi eftir um hálft ár. Það mun meðal annars fela í sér refsingar eins og húðstrýkingar fyrir brot á innflytjndalögum og afskurð handa fyrir þjófnað auk þess sem þeir sem eru staðnir að framhjáhaldi verða grýttir.

Soldáninn í Brúnei, Hassanal Bolkiah, tilkynnti þessa ákvörðun í dag.

Hingað til hefur Sjaría-lögum aðallega verið beitt í fjölskyldudeilum, en Soldáninn hefur um árabil vonað að koma þessum breytingum í gegn til að auka áhrif Íslams í ríkinu, sem er gríðarauðugt vegna olíuauðlinda.

Lögin munu aðeins eiga við um múslima, sem eru um tveir þriðju þjóðarinnar.

Awang Abdul Aziz, fremsti fræðimaður Brúnei um málefni tengd íslam, sagði að lögin muni „tryggja réttlæti og velferð til handa öllum.“

„Einblínum ekki á handaafskurð, grýtingar eða flengingar sem slíkar, heldur líka á skilyrðin þar að baki. Það er ekki verið að grýta fólk af handahófi, flengja þau eða skera af þeim hendur. Það eru skilyrði og réttlátar aðferðir til að framfylgja þeim.“

Awang bætti því við að þeir óttuðust ekki að ferðamenn myndu forðast að heimsækja landið eftir að nýju lögin taka gildi.

„Eru allir ferðamenn að koma hingað til að stela? Ef ekki, þurfa þeir ekki að óttast neitt. Trúið mér þegar ég segi að með nýju Sjaría-hegningarlögunum munu allir, þar á meðal ferðamenn, hljóta viðeigandi vernd.“

Ekki er búist við því að nýju lögin muni mæta mikilli andstöðu meðal almennings, en  íhaldssemi hefur lengi verið rík með þjóðinni, til dæmis er sala áfengis bönnuð þar í landi.

Hassanal Soldánn hefur ríkt sem þjóðhöfðingi Brúnei síðan 1967 og fer með framkvæmdavaldið það. Hann á ekki að venjast almennri gagnrýni á störf sín og stefnu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×