Erlent

Sögulegt samkomulag Indverja og Kínverja

Þorgils Jónsson skrifar
Forsætisráðherrar Kína og Indlands handsöluðu samkomulag um umdeilt landamærasvæði í vestanverðum Himalajafjöllum.
Forsætisráðherrar Kína og Indlands handsöluðu samkomulag um umdeilt landamærasvæði í vestanverðum Himalajafjöllum. Mynd/AP
Kína og Indland skrifuðu í morgun undir samkomulag um landamæravarnir, sem þykir gefa von um að í nú sjái fyrir endann á deilur milli asísku risanna um landamærasvæði í vestanverðum Himalajafjöllum.

Li Keqiang, forsætisráðherra Kína, og Manmohann Singh, kollegi hans frá Indlandi, handsöluðu samkomulagið að loknum fundi í Beijing í dag þar sem viðskipti milli ríkjanna komu einnig til tals, en Indland hefur bæði haft augastað á kínverskum markaði fyrir útflutningsvörur, sem og á fjárfestingum frá Kína.

Deilur hafa staðið milli landanna í hálfa öld þar sem Kína telur sig eiga um 90.000 ferkílómmetra landsvæði sem er innan landamæra Indlands, en á móti telja Indverjar sig eiga 38.000 ferkílómetra svæði innan landamæra Kína.

Löndin háðu meðal annars snarpt en blóðugt stríð um svæðið árið 1962, og síðan hafa fjölmargar tilraunir til sátta reynst árangurslausar. Í brýnu sló fyrr á þessu ári þegar Indland sakaði Kína um að hafa sent hersveitir inn fyrir landamæri sín. Kína hafnaði þessum ásökunum algjörlega.

Til að koma í veg fyrir að slíkar uppákomur endurtaki sig hafa ríkin ákveðið að efla samskipti sín á milli og funda með reglulegu millibili auk þess sem þeir leggja í sameiginlegt átak gegn smyglstarfsemi. Þá muni hersveitir landanna forðast að ögra hinum aðilanum og ekki veita hvort öðrum eftirför á umdeildum svæðum. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×