Fótbolti

"KSÍ er ekki geðslegur klúbbur“

Fanney Birna Jónsdóttir skrifar
Aðdáendur landsliðsins eru allt annað en sáttir við framkvæmd miðasölunnar.
Aðdáendur landsliðsins eru allt annað en sáttir við framkvæmd miðasölunnar.
Margir Íslendingar hafa brugðist ókvæða við fréttum af því að uppselt sé á leik íslenska landsliðsins gegn Króatíu 15. nóvember.

Vísir hafði samband við nokkra aðdáendur sem voru allt annað en sáttir.

„Ég er reiður,“ segir Friðrik Ómarsson, flugstjóri hjá Icelandair, sem er allt annað en ánægður með framkvæmd miðasölunnar.

„Mér finnst lágmark að fólki sé gefið að berjast um þessa miða á jafnréttis grunni og allir sitji við sama borð. Ég spyr mig að því hvort verið sé að stýra því hverjir fái miða þegar miðasala er hafin um miðja nótt,“ segir Friðrik.

Henning Árni Jóhannsson, nemi við Háskólann á Bifröst, segist vera mjög svekktur.

„Mér hefði aldrei dottið í hug að miðasalan færi í gang klukkan fjögur að nóttu til. Það er alls ekki venjan hjá KSÍ og Miða.is. Persónulega held ég að þeir hafi verið búnir að lofa of mörgum miðum frá sér til styrktaraðila og annarra, og ég hef heimildir fyrir því að mörg fyrirtæki fengu marga miða fyrirfram.“

Agnes Guðnadóttir, nemi, segist vera alveg brjáluð yfir þessu.

„Mér finnst algjörlega fáránlegt að gefa fólki ekki kost á einu sinni að kaupa miða. Ég skil ekki af hverju þetta er gert svona, þetta hefur aldrei verið svona áður, ég vaknaði með börnunum mínum klukkan sjö og datt þá ekki einu sinni til hugar að kíkja á netið eftir þessu,“ segir Agnes sem er mikið niðri fyrir.

Agnes telur þetta bjóða upp á svartamarkaðsbrask, þegar mönnum býðst að kaupa marga miða í einu og gerir ráð fyrir að þeir komi til sölu fljótlega á hærra verði á netinu.

„KSÍ er ekki geðslegur klúbbur,“ segir Pétur Gunnarsson, fyrrverandi blaðamaður, um framkvæmd miðasölunnar á Facebook síðu sinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×