Innlent

Fjármagn tryggt til túlkaþjónustu

Hrund Þórsdóttir skrifar
Ríkisstjórnin hefur samþykkt tillögu Illuga Gunnarssonar, mennta- og menningarmálaráðherra, um að hækka framlag til Samskiptamiðstöðvar heyrnarlausra og heyrnarskertra fyrir þetta ár og renna fjármunirnir í Félagslega sjóðinn sem ætlaður er fyrir túlkun við ýmsar athafnir daglegs lífs.

Á fjárlögum voru upphaflega veittar 12,6 milljónir króna til þessa en framlagið nú nemur sex milljónum króna. Því er ætlað að leysa tímabundið úr þeim vanda sem upp er kominn vegna túlkaþjónustu, en sjóðurinn tæmdist í byrjun septembermánuðar og var útlit fyrir að heyrnarlausir fengju ekki þessa nauðsynlegu þjónustu fyrr en á nýju ári. Sjóðurinn þjónar um 200 manns og kemur inn á öll svið daglegs lífs heyrnarlausra og oft atvinnu þeirra.

Félag heyrnarlausra lýsti þungum áhyggjum af stöðunni í bréfi til menntamálaráðherra snemma í september, en þá sagði hann ekki hægt að mæta þörf fyrir aukið fjármagn.

Í kvöldfréttum Stöðvar 2 í dag var fjallað um málið og sagði lögmaðurinn Hrefna Dögg Gunnarsdóttir að réttindi heyrnarlausra til að tjá sig með táknmáli væru tryggð í lögum.

„Með þessari stöðu hefur dregið úr þessum lögbundnu réttindum sem heyrnarlausir hafa til að tjá sig á táknmáli, ekki eingöngu í samskiptum við opinber stjórnvöld heldur líka í daglegu lífi og það held ég að sé staða sem þurfi mjög gagngert að taka til endurskoðunar,“ sagði Hrefna.

Lög mæla fyrir um að íslenskt táknmál sé jafnrétthátt íslensku og að óheimilt sé að mismuna fólki eftir því hvort málið það notar og benti Hrefna á að þótt ríkjum væri gefið svigrúm til að bregðast við lakara efnahagsástandi væru þau bundin af lögum og alþjóðlegum mannréttindasamningum.

Þá sagði hún Mannréttindadómstól Evrópu hafa komist að þeirri niðurstöðu að minni fjármunir ríkissjóðs réttlættu ekki brot gegn skyldum ríkisins samkvæmt Mannréttindasáttmála Evrópu. „Mannréttindi eru ekki munaður og þar af leiðandi er ekki hægt að skera þau niður eins og einhvern lúxus,“ sagði Hrefna.

Fjármagn hefur nú, eins og áður sagði, verið tryggt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×