Erlent

ESB og Kanada klára fríverslunarsamning

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Stephen Harper, forsætisráðherra Kanada, hélt til Brussel í gær.
Stephen Harper, forsætisráðherra Kanada, hélt til Brussel í gær. Mynd/AP
Búist er við því að Stephen Harper, forsætisráðherra Kanada, og Jose Manuel Barroso, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, leggi í dag lokahönd á fríverslunarsamning sem verið hefur í smíðum í fjögur ár.

Vonir standa til þess að samningurinn efli hagvöxt og dragi úr atvinnuleysi bæði í ríkjum ESB og í Kanada.

Kanadísk fyrirtæki fá betri aðgang að mörkuðum í Evrópusambandsríkjunum, og hið sama gildir um aðgang evrópskra fyrirtækja að Kanada. 

Tollar verða lækkaðir, reglur einfaldaðar og dregið úr hvers kyns skriffinnsku sem torveldað hefur öll viðskipti.

Kanadamenn horfa einnig til þess að aukin viðskipti við Evrópusambandsríkin geri það að verkum að Kanada verði ekki eins háð viðskiptum við Bandaríkjin og verið hefur.

Samningurinn gengur þó ekki í gildi fyrr en Evrópuþingið, ráð Evrópusambandsins og þjóðþing Kanada hafa staðfest hann.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×