Erlent

Vilja ekki sæti í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna

Samúel Karl Ólason skrifar
Adrei áður hefur ríkið hafnað því að taka sæti í öryggisráðinu.
Adrei áður hefur ríkið hafnað því að taka sæti í öryggisráðinu.
Sádi-Arabía hefur neitað sæti í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna en í tilkynningu frá utanríkisráðuneyti landsins, sem birt var nokkrum klukkustundum eftir að landið var kosið í öryggisráðið, var það sakað um tvöfalt siðgæði og sagði að áður en Sádi-Arabía tæki sæti í ráðinu þyrfti því að vera breytt. Frá þessu er sagt á vef BBC.

Ennfremur sagði í tilkynningunni að öryggisráðið hefði brugðist skyldum sínum gagnvart Sýrlandi og fleiri löndum. Bent var á að ráðinu hafi misheppnast að finna lausn á Palestínudeilunni í 65 ár og það hafi leitt til nokkurra styrjalda sem hafi ógnað heimsfriði. Einnig var ráðið gagnrýnt fyrir að hafa ekki tekist að losa mið-austurlönd við gereyðingarvopn eins og kjarnorkuvopn og að ráðið hafi leyft ríkisstjórn Sýrlands að drepa eigin borgara með efnavopnum.

Aldrei áður hefur ríki neitað að sitja í öryggisráðinu og var þetta í fyrsta sinn sem Sádi-Arabía var kosið í ráðið. Ban Ki-moon aðalritari sameinuðu þjóðanna segist ekki hafa verið látinn vita af ákvörðun Sádi-Arabíu fyrirfram og vill ekki segja hvort hann ætli að ræða við kóng landsins.

Fastafulltrúi Frakklands til Sameinuðu þjóðanna sagði að framlag Sádi-Arabíu til öryggisráðsins hefði verið jákvætt, en hann sagðist skilja viðhorf landsins.

15 þjóðir eru í Öryggisráðinu og þar af fimm með fast sæti, Bandaríkin, Bretland, Frakkland, Kína og Rússland. Hin 10 eru kosin af allsherjarþingi SÞ og sitja í ráðinu tvö ár í senn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×