Innlent

„Get ekki hugsað til enda hvernig þeim líður“

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
Kim Laursen, faðir stúlknanna, tjáir sig um brottnámið í viðtali við TV2.
Kim Laursen, faðir stúlknanna, tjáir sig um brottnámið í viðtali við TV2.
Fjallað er um mál íslensku konunnar sem flúði með dætur sínar þrjár til Íslands frá Danmörku á dönsku sjónvarpsstöðinni TV2 í þætti sem kallast „Brottflutt börn“.

Í þættinum er rætt við Kim Laursen, barnsföður konunnar, sem hefur fullt forræði yfir dætrunum en móðirin hefur umgengisrétt.

Í viðtalinu sýnir Kim tóm herbergi dætranna eins og sést í myndbandinu hér fyrir neðan og segist hafa miklar áhyggjur af þeim.

„Ég get ekki hugsað til enda hvernig þeim líður, ég get ekki hugsað til enda hvernig það er fyrir þær að ganga í gegnum þetta,“ segir Kim.

Í þættinum er sagt að þar sem bæði Ísland og Danmörk hafa undirritað Haag-samninginn þá beri yfirvöldum að afhenda börn, sem brottnumin eru með ólögmætum hætti, til landsins sem þau eiga lögheimili innan sex vikna.

Sagt er að í þeim tveimur tilfellum sem konan hefur farið með börnin til Íslands með ólögmætum hætti hafi tekið fimm og sjö mánuði að fá börnin aftur til Danmerkur.

Kim segist ekki lengur hafa trú á að samningurinn hjálpi honum og börnum hans.

„Samningurinn hefur ekki hjálpað hingað til. Yfirvöld fylgja honum ekki eftir heldur senda bara beiðnir fram og tilbaka,“ segir Kim.

Danskur félagsráðgjafi, Annette Vilhelmsen, segir í þættinum að dönsk yfirvöld geti ekki þvingað önnur lönd til að bregðast hraðar við.

„Þetta er samningur sem lönd skrifa undir af fúsum og frjálsum vilja. Þess vegna getum við ekki krafist neins eða beitt viðurlögum,“ segir hún.

Íslenska konan hefur tjáð sig um forræðisdeiluna á undanförnum árum í íslenskum fjölmiðlum þar sem hún segir að barnsfaðir hennar og fyrrverandi maður hafi beitt hana og börnin ofbeldi. Maðurinn hefur neitað þeim ásökunum.

Íslensk yfirvöld hafa ekki getað gefið neinar upplýsingar um málið.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×