Erlent

Á helíumblöðrum yfir Atlantshafið

Gunnar Valþórsson skrifar
Þrjátíu og níu ára gamall bandarískur ofurhugi, Jonathan Trappe reynir nú að komast í metabækurnar.

Í gær hóf hann sig til flugs frá íþróttavelli í Maine í Bandaríkjunum og er ferðinni heitið yfir Atlantshafið.

Ferðamátinn er óvenjulegur svo ekki sé meira sagt, en hann hefur bundið 370 helíumblöðrur við lítinn árabát og hyggst hann svífa á þeim yfir hafið, fyrstur manna til að gera slíkt.

Trappe er lagður af stað yfir Atlantsála á sínu sérkennilega farartæki.
Afar erftitt er að hafa stjórn á farartækinu og því erfitt að spá hvar hann mun lenda. Það gæti orðið á Íslandi en líka í Marokkó og hvar sem er þar á milli. Erlendir miðlar greina frá þessari tilraun, furðu lostnir.

Samkvæmt veðurspám er þó talið líklegast að hann lendi einhversstaðar í Vestur Evrópu, komist hann yfir hafið á annað borð. Hann mun ná mikilli hæð, eða um 25 þúsund fetum, þegar mest verður en til samanburðar má geta þess að farþegaþotur fljúga í um 30 þúsund feta hæð á leið sinni yfir hafið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×