Erlent

Sýrlandsstjórn afhendir Rússum sönnunargögn

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Skriðdreki frá sýrlenska hernum brennur í Damaskus.
Skriðdreki frá sýrlenska hernum brennur í Damaskus. Mynd/AP
Rússar segjast hafa fengið gögn sem sanni að uppreisnarmenn hafi beitt efnavopnum í Sýrlandi.

Sergei Ríabkov, aðstoðarutanríkisráðherra Rússlands, fullyrti þetta í morgun. Hann er staddur í Sýrlandi þar sem hann hittir meðal annars Bashar al Assad Sýrlandsforseta.

Efnavopnareftirlit Sameinuðu þjóðanna hefur staðfest, með rannsóknum á vettvangi, að efnavopn hafi verið notuð gegn almenningi í úthverfum Damaskusborgar í síðasta mánuði.

Í skýrslu rannsóknarteymisins er ekkert fullyrt um hvort stjórnvöld eða uppreisnarmenn hafi notað efnavopnin, en stjórnvöld í Bandaríkjunum, Bretlandi, Frakklandi og Þýskalandi hafa fullyrt að allt bendi til þess að það hafi verið sýrlenski stjórnarherinn sem stóð að þeim árásum.

Rússar hafa frá upphafi lýst miklum efasemdum um að Sýrlandsstjórni hafi átt hlut að máli, og segja miklu meiri líkur á því að uppreisnarmenn hafi gert efnavopnaárásir, og þá líklega í þeim tilgangi að koma sökinni á stjórnarherinn.

Rússar hafa verið andvígir því, að í ályktun öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna, sem nú er í smíðum, verði harðorð refsiákvæði þar sem valdbeitingu verði hótað standi Sýrlandsstjórn ekki við loforð um að láta efnavopn sín af hendi.

Ríabkov sagði ekkert um það, hvers konar sönnunargögn Sýrlendingar hafa látið Rússum í té. Hins vegar hafi Rússar tilhneigingu til að taka mark á þessum gögnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×