Erlent

Stunginn fyrir að hlusta á The Eagles

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
Hin geysivinsæla sveit The Eagles hélt tónleika hér á landi árið 2011. Vernett Bader er á innfelldu myndinni.
Hin geysivinsæla sveit The Eagles hélt tónleika hér á landi árið 2011. Vernett Bader er á innfelldu myndinni. samsett mynd/getty
Kona í Suður-Karólínu í Bandaríkjunum var handtekin á mánudagskvöld eftir að hún stakk sambýling sinn ítrekað með hníf.

Samkvæmt lögregluskýrslu var hin 54 ára Vernett Bader orðin pirruð vegna þess að 64 ára sambýlingur hennar og fyrrverandi kærasti neitaði að slökkva á tónlist bandarísku rokksveitarinnar The Eagles.

Þegar maðurinn sagði henni svo að þegja fór Bader í eldhúsið, náði í brauðhníf og stakk manninn ítrekað í handlegg, hönd og olnboga. Bróðir mannsins kom honum til aðstoðar og náðu þeir hnífnum af konunni en þá fór hún og sótti annan hníf. Þá hljóp maðurinn inn á baðherbergi og læsti sig þar inni. Öll voru þau ölvuð þegar árásin átti sér stað.

Bader hefur sakað manninn um að hafa reynt að kyrkja sig í aðdraganda árásarinnar en lögregla fann engin ummerki þess á hálsi hennar og staðfesti nágranni sögu mannsins.

Að sögn fréttastofu ABC kom ekki fram í lögregluskýrslu hvaða lög hljómsveitarinnar höfðu verið spiluð og hefur Bader verið ákærð fyrir alvarlegt heimilisofbeldi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×