Innlent

ESB viðræðum ekki slitið og óvíst um atkvæðagreiðslu

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Fjármálaráðherra segir ekki ástæðu til að slíta viðræðum við ESB með formlegri samþykkt Alþingis heldur sé rétt að bíða eftir skýrslu um stöðuna innan sambandsins. Talsmaður stækkunarstjóra ESB segir að einróma ákvörðun allra aðildarríkja ESB um að hefja formlegar viðræður við Ísland sé enn í fullu gildi.

Stefnuyfirlýsing ríkisstjórnarinnar hefur verið undirorpin túlkun. Sé hún hins vegar skýrð eftir orðanna hljóðan þá kemur hvergi fram berum orðum að halda skuli þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald viðræðna við ESB. Það er ekki talað um neina jákvæða skyldu í textanum, en þar er talað um hlé á viðræðum og úttekt Alþingis á ESB og síðan segir: „Ekki verður haldið lengra í aðildarviðræðum við Evrópusambandið nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu."

Engin ákvörðun um hvort eða hvenær atkvæðagreiðsla verður

Margir hafa hins vegar túlkað þennan texta að í honum felist loforð um þjóðaratkvæði. Þá lýsti Bjarni Benediktsson því yfir í kosningabaráttunni að hann vildi þjóðaratkvæði um framhald viðræðna á fyrri hluta kjörtímabilsins. „Ákvörðun þessarar ríkisstjórnar var að stöðva viðræðurnar og það hefur verið gert. Síðan vorum við sammála um í þinginu að taka upp umræður um þróun innan Evrópusambandsins og stöðu viðræðnanna, hvað hefði gerst og það verður gert núna í haust, en það liggur ekki fyrir nein ákvörðun um hvenær þjóðaratkvæðagreiðsla verður eða hvort hún verður haldin,“ segir Bjarni Benediktsson í samtali við fréttastofu.

Peter Stano, talsmaður stækkunarstjóra ESB sem er ein af undirstofnunum framkvæmdasjtórnarinnar,  segir í skriflegu svari að Ísland sé enn skilgreint sem ríki í aðildarviðræðum. Aðildarríkin hafi einróma samþykkt að hefja viðræður við Ísland árið 2010 og sú ákvörðun sé enn í fullu gildi.

Samþykkt Alþingis þarf til að slíta viðræðunum

Viðræðurnar byggjast á samþykkt Alþingis frá 2009. Þannig þarf þingvilja til að fella þá ákvörðun úr gildi. Stjórnarflokkarnir eru báðir á móti aðild að ESB. Núna er hins vegar komin upp sú staða að gert hefur verið hlé á viðræðunum, en þeim ekki slitið. Á sama tíma er algjörlega óvíst hvort fram fari þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald þeirra. Miðað við yfirlýsingar ráðherra síðustu daga verður það í reynd að teljast ólíklegra en hitt.

Er ekki heiðarlegt að leggja þá bara fram þingsályktunartillögu um að slíta viðræðunum? „Ja, ég ætla bara að leyfa umræðunni að eiga sér stað í þinginu,“ segir Bjarni. Hann segist undrast uppslátt fjölmiðla um málið síðustu daga þar sem ESB sé ekki og hafi aldrei verið forgangsmál ríkisstjórnarinnar.

Við fjölluðum einnig um málið í hádegisfréttum okkar á Bylgjunni. Þá kom fram að Bjarni teldi algjörlega ótímabært að ræða hvort tilefni væri til að halda þjóðaratkvæðagreiðslu samhliða sveitarstjórnarkosningunum á næsta ári að því gefnu að skýrsla Alþingis lægi fyrir.




Tengdar fréttir

Segir hræðsluáróður ekki málinu til framdráttar

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið hefur til skoðunar hvernig því verður mætt að IPA-styrkur ESB til verkefnisins Örugg matvæli fellur niður. Stofnanir hefðu átt að leita beint til ráðuneytisins í stað hræðsluáróðurs, segir ráðherra.

Stefna varðandi þjóðaratkvæði í lausu lofti

Forsætisráðherra og fjármálaráðherra hafa ekkert rætt það sín á milli hvort eða hvenær þjóðaratkvæðagreiðsla um áframhaldandi viðræður við Evrópusambandið fer fram. Þannig er stefna ríkisstjórnarinnar í málinu í raun í lausu lofti. Yfirlýsingar utanríkisráðherra fyrir helgi komu þingmönnum og ráðherrum Sjálfstæðisflokksins í opna skjöldu.

Ragnheiður styður ekki slit á ESB-viðræðum

"Gunnar Bragi hefur alla tíð verið þessarar skoðunar en Sjálfstæðisflokkurinn sagði annað,“ segir Ragnheiður Ríkharðsdóttir um að forysta Sjálfstæðisflokksins standi við loforð sitt. " Mér finnst sjálfri ekkert annað koma til greina.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×