Erlent

Neitunin gæti leitt til lögsóknar

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
Manning segist hafa áttað sig á því snemma í æsku að hún væri kona föst í líkama karlmanns.
Manning segist hafa áttað sig á því snemma í æsku að hún væri kona föst í líkama karlmanns. samsett mynd
Það að uppljóstrarinn Chelsea Manning fái ekki að hefja hormónameðferð í fangelsi gæti leitt til lögsóknar sem væntanlega yrði að prófmáli fyrir transfólk í herþjónustu í Bandaríkjunum.

Manning, sem þar til í dag gekk undir nafninu Bradley, var í gær dæmd í 35 ára fangelsi fyrir að leka fjölda leyniskjala frá Bandaríkjaher til Wikileaks. Í morgun var svo lesin yfirlýsing frá henni í morgunþætti NBC, Today, þar sem hún segist vera kona, hafi tekið upp nafnið Chelsea og óski eftir því að hefja hormónameðferð eins fljótt og auðið er.

Yfirmenn Fort Leavenworth-fangelsisins segjast ekki bjóða upp á slíka meðferð en lögmaður Manning segist ætla að gera allt sem hann geti til þess að sjá til þess að þeir geri það. Þá segja mannréttindasamtökin ACLU að neitunin gæti mögulega verið brot á stjórnarskrárbundnum réttindum Manning.

Ekki er vitað hvort Manning hyggi á kynleiðréttingu en hún segist hafa áttað sig á því snemma í æsku að hún væri kona föst í líkama karlmanns.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×