Erlent

Eldarnir loga enn í Yosemite

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Nærri 600 ferkílómetrar af skóglendi hafa orðið eldinum að bráð.
Nærri 600 ferkílómetrar af skóglendi hafa orðið eldinum að bráð. Mynd/AP
Skógareldarnir við norðurenda Yosemite þjóðgarðsins í Bandaríkjunum hafa geisað frá 17. ágúst og eru nú orðnir meðal þeirra allra erfiðustu og stærstu sem orðið hafa í Kaliforníu.

Nærri 600 ferkílómetra skóglendi er orðið eldinum að bráð og þúsundir slökkviliðsmanna eiga í mestu vandræðum með að ráða við hamfarirnar.

Fjalllendið er erfitt yfirferðar, skraufþurrt er í veðri og hvassir vindar auka enn á vandann.

Hundruð manna vinna þessa stundina hörðum höndum að því að grafa skurði og ryðja runnagróður í von um að geta komið í veg fyrir að eldarnir nái til nokkurra fjallaþorpa, sem annars eru í mikilli hættu.

„Við erum að glíma við erfiðar aðstæður og einstaklega ögrandi veðurfar,” hefur AP fréttastofan eftir Bjorn Frederickson, talsmanni skógareftirlits Bandaríkjanna, US Forest Service.

Á vefsíðu skógareftirlitsins má sjá að ástandið í Kaliforníu og nágrenni er með allra versta móti. Hundruð nýrra elda hafa kviknað undanfarna daga í þrumuveðri, enda hefur lítil sem engin úrkoma fylgt þessu þrumuveðri.

Alls hafa meira en 30 þúsund gróðureldar brotist út í Bandaríkjunum það sem af er þessu ári og skilið eftir sig nærri 14 þúsund ferkílómetra af brunnu landi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×