Innlent

"Það kemur enginn til Íslands nema eiga peninga“

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Um 800 þúsund ferðmenn munu heimsækja Ísland í ár en eftir tíu til fimmtán ár verður þessi tala komin upp í tvær milljónir ferðamanna. Þetta segir Jón Ásbergsson, framkvæmdastjóri Íslandsstofu.

„Ég held að innan tíu ára verði tvær milljónir ferðamanna á Íslandi. Það er ekkert mál að taka við þessum fjölda, en að sjálfsögðu þufum við að undirbúa þetta vel, " segir Jón.

Í haust hefur verið ákveðið að verja 600 milljónum króna til markaðsátaks Ísland allt árið, 300 milljónir koma frá ríkinu og 300 milljónir frá öðrum aðilum. Ferðamennirnir skilja mikla peninga eftir sig í landinu.

„Það kemur enginn til Íslands nema eiga peninga. Rannsóknir sem hafa verið gerðar af  Ferðamálastofu benda allar til þess að þeir ferðamenn sem hingað koma séu allir í efri lögum tekjustigsins í sínum heimalöndum," segir Jón.

Erlendum ferðamönnum sem heimsækja Ísland fjölgar og fjölgar og er í raun erfitt að átta sig á því hvað næstu ár þýða varðandi frekari fjölgun ferðamanna. Í ár verða erlendu ferðamennirnir um átta hundruð þúsund, mörgum finnst það meira en nóg en aðrir brosa út af eyrum vegna fjöldans og vilja fá miklu fleiri ferðamenn til landsins. Jón segir fólk flykkjast til Íslands vegna þess hversu einstakt það er.

„Ísland er mjög óvenjulegt land og fólk er að sækja í eitthvað nýtt og spennandi. Það hafa allir farið á sólarstrendur, til Spánar og Portúgal, og nú vill fólk gera eitthvað öðruvísi."
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.